Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. júlí 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Útgjöld sjúkratrygginga vegna þunglyndislyfja lækkuðu um 53% á tveimur árum

Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr lyfjakostnaði hafa skilað verulegum árangri og árið 2011 lækkaði kostnaðurinn þriðja árið í röð. Kostnaður sjúkratrygginga vegna þunglyndislyfja lækkaði um 575 milljón króna frá árinu 2009 til 2011 eða um 53%.

Lyfjakostnaður sjúkratrygginga 2003-2011Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) birtu nýlega skýrslu um lyfjakostnað sjúkratrygginga árið 2011. Þar kemur fram að lyfjakostnaður sjúkratrygginga, að undanskyldum S-merktum lyfjum (sjúkrahúslyfjum), lækkaði árið 2011 um 2,7% frá fyrra ári þrátt fyrir að lyfjanotkun hafi aukist á sama tíma um 5,1% mæld í fjölda skilgreindra dagskammta (DDD). Lækkunin skýrist einkum af aðgerðum stjórnvalda þegar breytingar voru gerðar á greiðsluþátttöku í þunglyndislyfjum og í flogaveikilyfinu Lyrica, auk þess sem samkeppni hefur aukist. Kostnaður sjúkratrygginga árið 2011 var tæplega 9,6 milljarðar króna en hefði að óbreyttu orðið 750 milljónum kr. hærri en  raunin varð segir í skýrslu SÍ.

Dæmi um að lyf hafi lækkað um 77%

Kostnaður sjúkratrygginga vegna flogaveikilyfsins Lyrica lækkaði um 100 milljónir króna milli áranna 2010 og 2011 og kostnaður vegna þunglyndislyfja lækkaði um 221 milljón króna á sama tímabili. Í kjölfar breytinga á greiðsluþátttöku í þunglyndislyfjum dró verulega úr notkun dýrari lyfja og verð nokkurra lyfja lækkaði mikið, meðal annars með tilkomu nýrra samheitalyfja inn á markaðinn. Sem dæmi lækkaði verð á escítalópram (20 mg 100 stk. pakkning) um 77% og venlafaxin (150 mg 98 stk. pakkning) lækkaði um 64%. Auk þessa var greiðsluhluti sjúklings hækkaður 1. janúar 2011 um 5,23%.

Kostnaður sjúkratrygginga vegna þunglyndislyfjaÁrið 2009 voru þunglyndislyf kostnaðarsamasti lyfjaflokkur sjúkratrygginga en eru nú í fimmta sæti. Örvandi lyf, lyf notuð við ADHD (ofvirkni og athyglisbresti) og lyf sem efla heilastarfsemi voru aftur á móti sá lyfjaflokkur sem sjúkratryggingar vörðu til mestum útgjöldum árið 2011, en sá lyfjaflokkur var í fimmta sæti árið 2009.

Metýlfenídat

Kostnaður sjúkratrygginga vegna lyfja sem innihalda metýlfenidat og notuð eru við ofvirkni og athyglisbresti hefur aukist mikið á síðastliðnum árum og verið í fyrsta sæti yfir kostnaðarsömustu lyfin s.l. þrjú ár.

Haustið 2010 skipaði velferðarráðherra vinnuhóp sem lagði til ýmsar tillögur til að draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir misnotkun þessara lyfja. Mjög var hert á vinnureglum SÍ við útgáfu lyfjaskírteina frá 1. janúar 2011, en áhrif þeirra komu ekki fram að fullu fyrr en 1. maí 2011. Þann 1. júní s.l. var enn hert á vinnureglum SÍ við útgáfu lyfjaskírteina og í mars á þessu ári gaf Embætti landlæknis út endurskoðaðar klínískar leiðbeiningar sem heita „Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests og ofvirkni.“ Eftirlit landlæknis með ávísun þessara lyfja hefur einnig verið eflt.  Nauðsynlegt þykir að gera frekari ráðstafanir til að draga úr notkun metýlfenídatlyfja, einkum meðal fullorðinna, og er unnið að gerð tillagna með það að leiðarljósi í velferðarráðuneytinu.

Þótt notkun metýlfenídatslyfja haldi áfram að aukast en aukningin er þó  minni en áður í kjölfar þeirra aðgerða sem gripið var til. Árið 2011 jókst notkun metýlfenídatslyfja um 8% hjá einstaklingum 20 ára og eldri frá fyrra ári. Notkunin jókst mun meira árin á undan, eða um 26% árið 2009 frá fyrra ári og um 20% árið 2010. Sama þróun sést hjá börnum og ungmennum yngri en 20 ára en í þeim aldurshópi jókst notkunin um 3% milli áranna 2010 og 2011 en um 11% árið 2009 og 9% árið 2010.

Nauðsynlegt þykir að gera frekari ráðstafanir til að draga úr notkun metýlfenídatlyfja, einkum meðal fullorðinna, og er unnið að gerð tillagna með það að leiðarljósi í velferðarráðuneytinu.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum