Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. júlí 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2011

Fréttatilkynning nr. 9/2012

Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2011 hefur nú verið birt. Niðurstaðan sýnir að hvað reglubundinn rekstur ríkisins varðar hefur náðst sá árangur sem að var stefnt í aðhaldi ríkisfjármála.

Frávik á gjaldahlið skýrist af óreglulegum liðum en ekki venjubundnum rekstri. Munar þar mest um framlög vegna SpKef og tap fyrri ára í rekstri Byggðastofnunar og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.  Allt þetta kjörtímabil hafa markmið á sviði ríkisfjármála verið skýr. Frá miðju ári 2009 hefur verið unnið að því að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun ríkisins með bættri tekjuöflun og samdrætti á útgjaldahlið ríkissjóðs. Til að ná þessum markmiðum hefur með umfangsmiklum aðhaldsaðgerðum verið unnið að lækkun ríkisútgjalda, skipulagsbreytingum, hagræðingu og aukinni tekjuöflun. Þessar aðgerðir hafa verið krefjandi og stundum erfiðar en starfsmenn og stofnanir ríkisins hafa unnið sleitulaust að þessum markmiðum sem ber að þakka fyrir.

Á heildina litið hefur efnahagsáætlunin gengið eftir en nú skiptir áframhaldandi árangur sköpum fyrir trúverðugleika þeirrar fjármálastefnu sem stjórnvöld hafa sett sér og unnið eftir. Íslenska ríkið hefur sýnt mikinn styrk í því að fylgja þessari áætlun eftir og hefur það þegar skilað sér í tveimur vel heppnuðum skuldabréfaútboðum ríkisins á erlendum markaði, á árunum 2011 og 2012. Efnahagsumhverfið á árinu 2011 sýndi jákvæð merki um bata, með vexti í landsframleiðslu, og að sjálfsögðu endurspeglast aukin eftirspurn og tekjumyndun í efnahagslífinu í bættri afkomu ríkissjóðs. Þetta þýðir þó ekki að eitthvað megi slaka á heldur er framundan áframhaldandi glíma við að vinna að fullu bug á hallarekstrinum eins og efnahagsáætlunin gerir ráð fyrir.

Fjármál ríkissjóðs 2011 og 2010

Í milljónum króna
Reikningur 2011
Fjárlög / fjáraukalög 2011
Frávik, fjárhæð
Frávik, %
Reikningur 2010
Tekjur samtals
486.526
480.856
5.670
1,2
478.697
Gjöld samtals
575.950
527.248
48.702
9,2
601.982
Tekjur umfram gjöld
-89.424
-46.392
-43.032
.
-123.285
Frumjöfnuður
-43.204
-1.066
-42.138
.
-84.437
Lánsfjárafgangur / lánsfjárþörf, nettó (+/-)
57.747
-51.791
109.538
.
-53.043
Tekin lán, nettó
146.783
71.000
75.783
.
155.488
Innlend lán
62.316
.
116.076
Erlend lán
84.467
.
39.412
Breyting á handbæru fé
204.530
19.209
185.321
.
102.445
Hlutfall af vergri landframleiðslu %          
Tekjur samtals
29,8
29,5
.
.
31,2
Gjöld samtals
35,3
32,3
.
.
39,2
Tekjur umfram gjöld
-5,5
-2,8
.
.
-8,0
Frumjöfnuður
-2,7
-0,1
.
.
-5,5
Lánsfjárafgangur / lánsfjárþörf, nettó (+/-)
3,5
-3,2
.
.
-3,5

Afkoma ríkissjóðs

Tekjujöfnuður ársins 2011 varð neikvæður um 89 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 46 milljarða og var því raunútkoman  43 milljörðum króna verri en gert var ráð fyrir í heildarfjárheimildum ársins. Þessi tekjuhalli er um 18% af heildartekjum ársins og 5,5% af landsframleiðslu. Tekjurnar voru 6 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir og gjöldin 49 milljörðum króna hærri. Þrátt fyrir að þessi niðurstaða sé lakari en gert var ráð fyrir í áætlunum þá er hún betri en á árinu 2010 þegar tekjujöfnuðurinn var neikvæður um 123 milljarða króna. Frumjöfnuður ársins er neikvæður um  43 milljarð króna en gert var ráð fyrir að hann yrði neikvæður um rúman 1 milljarð króna. Þessi frávik frá áætlunum skýrast að langstærstu leyti af óreglulegum liðum og einsskiptis kostnaði sem ekki var gert ráð fyrir og tengist að hluta uppgjöri við hrunið 2008. Mest munar um gjaldfærslur vegna SpKef sparisjóðs upp á 20 milljarða króna. Þá námu niðurfærslur eignarhluta hjá Byggðastofnun um 7 milljörðum króna og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins um 5 milljörðum króna en þær skýrast af  afskriftum vegna tapreksturs þeirra undanfarin ár. Þá er gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga tæpum 5 milljörðum króna umfram áætlun og afskriftir skattkrafna um 5 milljarða króna.

Tekjur ríkissjóðs

Tekjur ríkissjóðs á árinu 2011 urðu alls 486,5 milljarðar króna og jafngildir það 29,8% af landsframleiðslu. Árið 2010 námu tekjurnar 478,7 milljörðum króna eða 31,2% af landsframleiðslu. Hækkun tekna milli ára nam 7,8 milljörðum króna eða 1,6% og hækkun frá áætlunum er um 5,7 ma.kr. Talsverðar sveiflur eru í breytingum tekna milli ára.  Skattar á tekjur og eignir einstaklinga aukast um 3,6  ma.kr. en fjármagnstekjuskattar lækka um 12,4 ma.kr. Tekjur á hagnað fyrirtækja aukast hinsvegar um 15 ma.kr. Þá hækka tryggingargjöld um 3,2 ma.kr. Ef litið er á tekjur af veltu þá hækkar virðisaukaskattur um 7,4 ma.kr. og tekjur af vörugjöldum um 3,5 ma.kr. Loks lækka vaxtatekjur um 9,9 ma.kr. og aðrar peningalegar tekjur lækka um 14,1 ma.kr. sem svarar til tekna af svokölluðu Avens-samkomulagi á árinu 2010.    

Gjöld ríkissjóðs

Gjöld ríkissjóðs reyndust vera 575,9 milljarðar króna sem svarar til  35,3% af landsframleiðslu. Árið 2010 námu gjöldin 602,0 milljörðum króna eða 39,2% af landsframleiðslunni. Lækkun á milli ára nam, 26,0 milljörðum króna og er það lækkun  um 8,0% að raungildi. Heildarfjárheimildir ársins námu 543,7 milljörðum króna og voru gjöld því 32,2 milljörðum umfram heimildir sem að stærstum hluta skýrist af framlögum vegna SpKef og niðurfærsla á eignarhlutum í Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóði vegna tapa í rekstri fyrri ára. Stærstu útgjaldaliðir ríkissjóðs eru vegna almannatrygginga, velferðarmála og heilbrigðismála. Þessir liðir vega um 44,9% af heildar gjöldum á árinu 2011. Útgjöld til almannatrygginga og velferðamála námu 143,1 ma.kr. og 115,7 ma.kr. til heilbrigðismála og hækka þau um 10,7 ma.kr.  frá fyrra ári. Útgjöld til efnahags og atvinnumála námu 88,7 ma.kr. en til þeirra teljast framlög til ýmissa atvinnugreina og samgöngumála. Þar undir falla m.a framlög til SpKef og niðurfærsla í eignarhlutum ríkisfyrirtækja. Þessi liðir hækka um 28 ma.kr. frá fyrra ári. Útgjöld til mennta- og menningarmála námu 61,7 ma.kr. og lækka um 1,7 ma.kr. frá fyrra ári. Þá nam fjármagnskostnaður 65,6 ma.kr. og lækkar um 2,5 ma.kr. frá fyrra ári.

Um ríkisreikning 2011

Reikningur fyrir árið 2011 er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er vísir að samstæðureikningi um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru einstakir reikningar stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélaga sem eru að hálfu eða meiru í eigu ríkisins í E-hluta. Ríkisreikningur 2011 verður aðgengilegur á veraldarvefnum á heimasíðu Fjársýslu ríkisins þar sem hægt verður að fá nánari upplýsingar.

Reykjavík, 18. júlí 2012

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum