Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. ágúst 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Skipað í sérfræðinefnd um kynáttunarvanda

Fólk á torgi
Fólk á torgi

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur skipað þriggja manna sérfræðinefnd um kynáttunarvanda í samræmi við lög nr. 57/2012, um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, sem samþykkt voru á Alþingi 6. júní síðastliðinn.

Lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda kveða einkum á um úrbætur sem snúa að stjórnsýslu og málsmeðferð, tilhögun kynleiðréttinga og nafnabreytingar í þjóðskrá. Þar er sérstaklega kveðið á um hlutverk sérfræðinefndarinnar og hlutverk teymis Landspítala um kynáttunarvanda sem hefur umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð.

Hlutverk sérfræðinefndarinnar er að meta hvort umsóknir einstaklinga sem óska staðfestingar á því að þeir tilheyri gagnstæðu kyni uppfylli skilyrði laganna og einnig að meta hvort umsækjandi sé hæfur til aðgerðar vegna kynleiðréttingar ef þess er óskað. Nefndin annast einnig tilkynningar til Þjóðskrár Íslands vegna kynleiðréttingar.

Sérfræðinefndin er skipuð samkvæmt 5. grein laganna. Í henni sitja þrír menn, tveir skipaðir af velferðarráðherra án tilnefningar; landlæknir sem er formaður nefndarinnar og annar læknir. Þriðji nefndarmaðurinn skal vera lögfræðingur, tilnefndur af ráðherra sem fer með mannréttindamál.

Geir Gunnlaugsson landlæknir er formaður sérfræðinefndarinnar en aðrir nefndarmenn eru María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur og Engilbert Sigurðsson geðlæknir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum