Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. ágúst 2012 Forsætisráðuneytið

Tækifærin blasa við

Á 150 ára afmæli Akureyrar, höfuðstaðar Norðurlands, geta bæjarbúar litið yfir fjörðinn og fylgst álengdar með framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng, sem nú eru hafnar. Utanvert við fjörðinn vestanmegin fara heimamenn og ferðamenn um tvenn göng, Ólafsfjarðargöng og Héðinsfjarðargöng, sem reynst hafa byggðinni yst á Tröllaskaga afar þýðingarmikil. Þau hafa bætt öryggi íbúanna, stækkað atvinnusvæðið, aukið umsvif og skapað tækifæri til hagræðingar á ýmsum sviðum, meðal annars á sviði sveitarstjórnarmála.

Fjárfest í grunngerð

Jarðgöng eru dýr en þau stuðla að varanlegum breytingum og framförum í grunngerð og innviðum nærsamfélaganna. Það hefur ætíð verið sérstakt verkefni lýðræðislega kjörinna stjórnvalda og fjárveitingarvaldsins að stuðla að bættri grunngerð samfélagsins; samgöngum, velferð, menntun en einnig nýsköpun og atvinnuþróun. Að tryggja gerð Vaðlaheiðarganganna reyndi á þolrif fjárveitingarvaldsins og olli pólitískum deilum, rétt eins og gerð Héðinsfjarðarganganna. En þegar upp er staðið geta allir verið þess fullvissir að Vaðlaheiðargöng verða til góðs. Norðlendingar eignast eitt stórt atvinnusvæði sem teygir sig frá Eyjafirði austur fyrir Húsavík og í Mývatnssveit. Það er eftirsóknarvert og eykur stöðugleika. Það mun sýna sig enn frekar þegar erlendir fjárfestar, Thorsil og/eða PCC, hefja kísilmálmframleiðslu á Húsavík með tilheyrandi orkuöflun við Þeistareyki og Bjarnarflag fyrir að minnsta kosti 40 milljarða króna. Áætlað er að framkvæmdum ljúki við báðar virkjanirnar árið 2014. Ríkisstjórnin hefur stutt þessar fjárfestingar með ýmsu móti og samþykkti meðal annars nýlega fjárveitingu til borana í tengslum við samgöngumannvirki milli Húsavíkurkaupstaðar og Bakka. Það er eðlilegt að Norðlendingar horfi til þessara framkvæmda. Þær skapa hundruð starfa á framkvæmdatíma. Þær skapa vel á annað hundrað starfa til frambúðar og enn fleiri verði öll áformin að veruleika.

Nýjar og breyttar áherslur

En ríkisstjórnin hefur einnig og með áþreifanlegum hætti sett fram nýjar áherslur í atvinnumálum eins og fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015 ber með sér. Áætlunin kemur ekki síst landsbyggðinni til góða. Hún hvílir á tveimur tekjustoðum; 17 milljörðum króna sem teknir verða til verkefnisins af sérstöku veiðigjaldi næstu þriggja ára og 22 milljörðum króna sem fengnir verða með eignasölu og arði af hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.  Með veiðigjaldinu er gert ráð fyrir að verja samtals 7,5 milljörðum króna á þremur árum í samgöngumannvirki. Í krafti þessarar áætlunar verður gerð Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga flýtt. Undirbúningur er hafinn og  verða Norðfjarðargöngin boðin út um eða eftir næstu áramót. Ráðgert er að framkvæmdir geti hafist upp úr miðju næsta ár.

Með veiðigjaldinu er einnig ætlunin að fjármagna rannsókna- og tækniþróunarsjóði sem og markaðsáætlanir. Loks er gert ráð fyrir að verja af þessum tekjustofni umtalsverðum fjármunum næstu þrjú árin til sóknaráætlunar landshluta.

Eignasala á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og arðtaka af þeim skilar auk þess fé til frekari fjárfestinga m.a. við uppbyggingu ferðamannastaða, í verkefnasjóð skapandi greina og grænna og orkusparandi verkefna. Þá vil ég nefna sérstaklega að af þessu fé er ætlunin að verja allt að 250 milljónum króna til framkvæmda við Háskólann á Akureyri næstu þrjú árin.

Sókn landhlutanna

Ég bind miklar vonir við sóknaráætlun landshlutanna. Hún felur í sér einfaldari og skilvirkari samskipti milli landshlutanna og ríkisvaldsins. Ég treysti því að sveitarstjórnarmenn og aðrir sem um fjalla sýni skilning og góðan vilja um samstarf til að bæta samfélag okkar að þessu leyti. Leiðarljósið er meðal annars að fækka og samþætta áætlanir sem hafa verið á höndum margra ráðuneyta og stofnana. Okkur er það kappsmál að einfalda þetta kerfi en nýta þess í stað fjármunina betur til heillavænlegra verkefna í landshlutunum. Ríkisstjórnin er sjáf um þessar mundir að fækka ráðuneytum og stækka þau. Tilgangurinn er vitanlega að bæta fagleg vinnubrögð og sjá til þess að vel sé farið með almannafé, að almannahagsmunir séu ávallt í fyrirrúmi og geðþótti ríki ekki í ákvarðanatökunni.

Stjórnarráðið hefur í tvö árið unnið eftir þessari hugmynda- og aðferðafræði en hún birtist vel í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um Ísland 2020. Þessi stefna endurspeglast í sóknaráætlunum landshlutanna. Með sama hætti og stjórarráðið verður vonandi einfaldara, faglegra og skilvirkara með fækkun og stækkun ráðuneyta er það von mín að sambærilegar breytingar eigi sér stað innan landshlutanna. Segja má að  stofnun Austurbrúar, stoðkerfis atvinnulífsins á Austurlandi,  í maí síðastliðnum hafi verið mikilvægt skref í átt að einfaldari og skilvirkari samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Í framtíðinni mætti vel hugsa sér einn samning milli ríkis og sveitarfélaga þar sem landshlutinn hefur meira vægi og vald er kemur að úthlutun fjármuna og ákvörðunum um stefnumál er snerta hann.

Sígandi lukka er best

Í heildina tekið er að sjá sem framtíðin norðaustanverðu landinu  og í höfuðstað fjórðungsins sé björt. Fjórðungurinn skartar mörgu af því besta sem ört vaxandi ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða. Þar eru ýmis mikilsverð fjárfestingarverkefni á döfinni. Þar er unnið að bættri grunngerð með samgöngubótum. Atvinnuleysi í landshlutanum er nú aðeins um 3 % samkvæmt nýjustu mælingum Vinnumálastofnunar. Þetta eru allmikil umskipti frá sama tíma í fyrra þegar 4,4% voru án atvinnu.
 
Ég vil nota tækifærið til þess að óska Akureyringum hjartanlega til hamingju með 150 ára afmælið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum