Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. september 2012 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra færir Íþróttasambandi fatlaðra 4 milljónir króna

Jón Margeir Sverrisson, gullverðlaunahafi og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra
Jón Margeir Sverrisson, gullverðlaunahafi og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra

Ríkisstjórnin færði í dag Íþróttasambandi fatlaðra fjórar milljónir króna að gjöf í viðurkenningarskyni fyrir glæsileg afrek íslensku þátttakendanna í Ólympíuleikum fatlaðra sem nýlokið er í Lundúnum.

Jón Margeir Sverrisson hlaut gullverðlaun í 200 metra skriðsundi og setti heimsmet.

Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi, Helgi Sveinsson í spjótkasti og Kolbrún Alda Stefánsdóttir í 100 og 200 metra skriðsundi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra,  ávarpaði Ólympíufaranna hjá Íþróttasambandi fatlaðra er þeir komu heim af Ólympíuleikunum í dag. Hún lofaði árangur keppendanna og sagði m.a.:

„Þið eruð svo sannarlega góðar fyrirmyndir og hafið sýnt okkur öllum hve góðum árangri má ná með ástundun, iðni og þolinmæði og síðast en ekki síst samstöðu. Ég nefni samstöðu, því að fátt er mikilvægara þegar fatlað fólk er annars vegar; samstaða innan  fjölskyldna, samstaða um þjónustu við fatlaða og samstaða innan samfélagsins í heild. Ég hef áður sagt að aðbúnaðar fatlaðra í hverju landi segir mikið um það hvar á vegi samfélög eru stödd. Þetta kom m.a. í ljós á nýafstöðnu Ólympíumóti.  Ég er afar stolt af því að búa í landi, sem á verðlaunahafa á Ólympíumóti fatlaðra, og tel það bera vitni um að margt sé vel gert þegar kemur að almennum aðbúnaði fatlaðra hér á landi og viðhorfi sem m.a. endurspeglast í því ómetalega neti sem fjölskylda og vinir mynda... Framganga ykkar á nýafstöðnu Ólympíumóti hefur því snert okkur öll og er eins og aðrir sigrar á þessum vettvangi til þess fallin að efla samstöðu meðal þjóðarinnar.“

Sjá ávarp forsætisráðherra í heild sinni hér á vefnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum