Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. september 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Guðmundur Páll Ólafsson - Kveðja

 „Lífið er félagsskapur - ekki aðeins manna heldur allra lífvera á lifandi jörð. Svo náinn og samslunginn er þessi félagsskapur að lífheimurinn hefur í sameiningu stillt veðurfar og hitastig á jörðu frá örófi alda.

Núna er hinsvegar lífi á jörðu ógnað vegna þess að ein tegund sem sjálf kallar sig „viti borinn mann“ brýtur leikreglur félagsskaparins á þeim sjálfgefnu forsendum að vera sköpuð í guðs mynd.

Í hroka sínum og sjálfselsku vanvirðir hún sína eðlisvitru móður jörð, lífið, fegurðina og ástina. Sjálft límið í tilverunni.“

Þannig hóf Guðmundur Páll Ólafsson ræðu sína á Umhverfisþingi í haust sem leið. Stóra samhengið var hans vettvangur. Lífið allt. Lífríkið, vatnið, loftið og jörðin þar sem ekkert getur án annars verið. Heimspekilegur, beittur og rammpólitískur. Skarpur í gagnrýni sinni á forgangsröð græðginnar og yfirgangsins. Nærfærinn og fullur hlýju þegar talið barst að náttúrunni og auðæfum hennar.

Lítil eyja á breiðum firði rúmar háleitar hugsanir og litríkt mannlíf, líkt og landið okkar bláa og Jörðin björt í dimmum geimi. Í Flatey var annað heimili Guðmundar Páls og þar höfum við og fólkið okkar í nokkrar kynslóðir átt með honum og Ingu mörg kynni og yndisstundir.

Maðurinn er hluti náttúrunnar en ekki drottnari hennar. Það var kjarninn í framlagi Guðmundar Páls. Boðskapur hans til núlifandi og komandi kynslóða. Ævistarfið gríðarlegt. Framlagið ómetanlegt. Með fræðslu kemur þekking og með þekkingu kemur virðing.

Full þakklætis og auðmýktar horfum við á eftir eldhuga og kraftmiklum áhrifavaldi sinnar samtíðar. Verk hans, áhrif og sýn á lifandi heim verða okkur leiðarljós um alla framtíð. „Lífið er félagsskapur.“

Við vottum Ingu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Svandís Svavarsdóttir og Torfi Hjartarson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum