Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. október 2012 Forsætisráðuneytið

Stofnun mannréttindastofnunar rædd á fundi um mannréttindamál

Sjöundi og næstsíðasti fundur innanríkisráðuneytisins í fundaröð um mannréttindamál var haldinn í gær og var þar fjallað um hvort stofna beri sjálfstæða mannréttindastofnun á Íslandi. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar. Hann fjallaði um að fundurinn væri hluti af samráðsferli um mótun landsáætlunar í mannréttindum sem lögð verði fyrir Alþingi á næstu vikum. Í áætluninni verða lagðar fram hugmyndir stjórnvalda um hvernig megi efla mannréttindi og bregðast við alþjóðlegri og innlendri gagnrýni á framkvæmd og vernd mannréttinda á Íslandi.

Ögmundur Jónasson flutti erindi á fundi innanríkisráðuneytisins um stofnun mannréttindastofnunar í vikunni.Í ávarpi sínu sagði innanríkisráðherra að umræðan um stofnun mannréttindastofnunar væri sett fram í ofangreindu samhengi en íslensk stjórnvöld hafa ítrekað fengið hvatningu á grundvelli mannréttindasamninga sem ríkið er aðili að hjá Sameinuðu þjóðunum um að setja á laggirnar mannréttindastofnun í samræmi við svokallaðar Parísarreglur, viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Hann sagði það krefjast ígrundaðrar umræðu hvort stofna skuli mannréttindastofnun og fram þyrfti að fara víðtækt samráð um hvernig því yrði best fyrirkomið í íslensku samfélagi.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, alþingismaður stýrði fundinum og Oddný Mjöll Arnardóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands fluttu upplýsandi og ítarleg erindi um ýmsar hliðar efnisins.

Erindi fluttu Oddný Mjöll Arnardóttir, Margrét Steinarsdóttir og Tryggvi Gunnarsson.Fjallað var um stofnanir sem starfa í samræmi við Parísarviðmiðin og hvert hlutverk og samfélagslegur hagur af slíkri stofnun gæti verið á Íslandi. Fjallað var um stefnur og strauma um stofnanaþætti ríkja við vernd mannréttinda á alþjóðlegum vettvangi og rætt um mikilvægi virkrar réttindaverndar í ríkjum. Í þessu samhengi var fjallað um verkefni mannréttindastofnunar í samræmi við Parísarviðmiðin og þau mátuð við hlutverk og starfsemi stofnana og samtaka á Íslandi, sérstaklega með hliðsjón af starfi umboðsmanns Alþingis og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Ögmundur Jónasson flutti ávarp á fundi innanríkisráðuneytisins um stofnun mannréttindastofnunar í vikunni.Að loknum erindum var gefinn kostur á fyrirspurnum og umræðum. Rætt var um virkni réttindaverndar og úrræði fyrir einstaklinga, að horfa yrði á stofnanakerfið í heild með gagnrýnum hætti og um hlutverk afla á borð við hagsmunasamtök, stéttarfélög og frjáls félagasamtök við vernd og eflingu mannréttinda. Í því samhengi var rætt um aðgang einstaklinga sem telja á sér brotið, meðal annars með hliðsjón af reglum um gjafsóknir.  

Umræður og sjónarmið sem komu fram á fundinum verða nýtt við mótun verkefna í landsáætlun um mannréttindi. Með fundaröðinni er leitast við að fá sem flesta til að taka þátt í stefnumótun í málaflokknum til að hún eigi sér ekki aðeins stað innan veggja ráðuneyta heldur í samstarfi og í beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélag og almenning.

Glærur fyrirlesara:

Síðasti fundurinn í fundaröðinni er ráðgerður 29. október nk. og verður þar fjallað um lögfestingu mannréttindasáttmála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum