Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. október 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reglugerð um framkvæmdaleyfi tekur gildi

Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org
Öryggishjálmar.

Reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi hefur tekið gildi en reglugerðinni er ætlað að tryggja faglegan undirbúning við útgáfu framkvæmdaleyfa og koma á samræmdu ferli vegna umsókna um framkvæmdaleyfi.

Reglugerðin á að tryggja að leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir og mat á umhverfisáhrifum. Þá á hún að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarminja og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ennfremur er markmið reglugerðarinnar að tryggja að virkt eftirlit sé með því að framkvæmdir séu ekki hafnar án leyfis og að þær séu í samræmi við útgefin leyfi. Þannig er reglugerðinni ætlað að treysta málsmeðferð og stuðla að samræmdri stjórnsýslu.

Meðal annars er í reglugerðinni kveðið á um hvaða framkvæmdir séu háðar framkvæmdaleyfi, hvenær framkvæmd teljist hafin, um eftirlit með leyfisskyldum framkvæmdum, um gögn vegna umsókna um framkvæmdaleyfi og um útgáfu framkvæmdaleyfa. Skal framkvæmdaleyfi gefið út á grundvelli deiliskipulags og verður gagnaöflun ítarlegri en fram að þessu. Þá verða fleiri framkvæmdir nú háðar framkvæmdaleyfum.

Reglugerðin er sett í kjölfar þess að ný skipulagslög voru samþykkt á Alþingi árið 2010, en þar er kveðið á um útgáfu sérstakrar reglugerðar um framkvæmdaleyfi.

Reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum