Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fræðsla á Vestfjörðum um hugmyndafræðina um sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk

Þriðjudaginn 16. október mun NPA miðstöðin, samvinnufélag fatlaðs fólks, í samstarfi við Velferðarráðuneytið, koma með fræðslu á Vestfirði um sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð. Fræðslan er ætluð fötluðu fólki og aðstandendum, fagfólki og sveitarstjórnarfólki og fer hún fram í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði kl. 13:00-17:00.

Fræðslan er í tengslum við tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð og hefur verkefnastjórn um NPA, á vegum Velferðarráðuneytisins, falið NPA miðstöðinni að sjá um framkvæmd hennar.

Markmið fræðslunnar er að kynna inntak og þýðingu hugmyndafræði baráttuhreyfinga fatlaðs fólks um sjálfstætt líf og helstu hornsteina hennar. Það er jafnframt að kynna reynslu annarra þjóða af notendastýrðri persónulegri aðstoð á grundvelli hugmyndafræðinnar og hvaða leiðir hafa verið farnar við innleiðingu og framkvæmd.

Fræðslan mun einnig miðast að því að kynna reynslu fatlaðra frumkvöðla á Íslandi sem hafa verið með persónulega aðstoð í gegnum þjónustusamninga við ríki og sveitarfélög. Þeir mun varpa ljósi á þær leiðir sem þeir hafa farið við skipulag og uppbyggingu eigin aðstoðar, ásamt því að segja frá hvaða þýðingu það hefur að öðlast vald og um leið ábyrgð yfir eigin lífi, frelsi til að móta eigin lífstíl og taka þannig virkan þátt í samfélaginu.

Fyrirlesarar verða Freyja Haraldsdóttir framkvæmdastýra NPA miðstöðvarinnar, Embla Ágústsdóttir stjórnarformaður NPA miðstöðvarinnar, Gísli Björnsson varaformaður stjórnar NPA miðstöðvarinnar, Aldís Sigurðardóttir stjórnarmeðlimur NPA miðstöðvarinnar og Vilborg Jóhannsdóttir lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Dagskrá:

Kynning á fræðslu og fyrirkomulagi

Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastýra NPA miðstöðvarinnar

Barátta fatlaðs fólks fyrir sjálfstæðu lífi og mannréttindum: Hugmyndafræði og helstu hornsteinar

Freyja Haraldsdóttir og Vilborg Jóhannsdóttir, lektor í þroskaþjálfafræðum

Frelsishrollurinn

Freyja Haraldsdóttir fjallar um hvernig líf hennar hefur breyst eftir að hún byrjaði að ráða sitt eigið aðstoðarfólk og stjórna sínu lífi.

Notendastýrð persónuleg aðstoð: hlutverk verkstjórnanda, aðstoðarverkstjórnanda og aðstoðarfólks

Embla Ágústsdóttir og Vilborg Jóhannsdóttir

Of miklar væntingar um eigin framtíð?

Embla Ágústsdóttir, stjórnarformaður NPA miðstöðvarinnar, fjallar um reynslu sína af baráttu fyrir sjálfstæðu lífi og hvernig notendastýrð persónuleg aðstoð breytti framtíðarsýn hennar.

Kaffi

,,Hver er forstöðukonan?”

Gísli Björnsson, varaformaður stjórnar NPA miðstöðvarinnar, fjallar um hvernig lífið breyttist þegar hann flutti af sambýli og í eigin íbúð með notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Þegar fjölskyldan sameinaðist á ný

Aldís Sigurðardóttir, stjórnarmeðlimur NPA miðstöðvarinnar, fjallar um líf sonar síns fyrir og eftir að hann fékk notendastýrða persónulega aðstoð. 

Umræður og samantekt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum