Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2012 Utanríkisráðuneytið

Samningar hafnir um tvo-þriðju samningskafla

Stada-med-texta---cropped

Í morgun voru opnaðir þrír kaflar til viðbótar í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið á sérstakri ríkjaráðstefnu sem fram fór í Brussel. Kaflarnir sem opnaðir voru í morgun eru kafli 9 um fjármálaþjónustu, kafli 18 um hagtölur og kafli 29 um tollabandalag. Nú hefur alls 21 kafli verið opnaður af þeim 33 sem semja þarf um.
 
Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, fór fyrir íslensku sendinefndinni en í henni voru einnig Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart ESB, Harald Aspelund, skrifstofustjóri Evrópumála í utanríkisráðuneytinu,  Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, og Auðunn Atlason, ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum.
 
Samningskafli  9 um fjármálaþjónustu er hluti af EES samningnum og hann fjallar um lög og reglur um þjónustuviðskipti, og eftirlit með banka- og fjármálastarfsemi. Fram kom á ríkjaráðstefnunni að Ísland innleiðir jafnóðum og beitir því regluverki ESB sem fellur undir kaflann. Lagarammi og stofnanakerfi  eru fyrir hendi á Íslandi til áframhaldandi innleiðingar þessa regluverks.  Í samningsafstöðu Íslands er m.a. fjallað um þær mikilvægu ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að styrkja stjórnsýslu og gæði eftirlits með fjármálaþjónustu í kjölfar fjármálakreppunnar og greint frá því að frekari umbætur standi yfir. Ísland fer fram á eina aðlögun við regluverkið í þessum kafla, að Viðlagatrygging Íslands verði undanskilin tilskipun um gjaldþolsáætlun. Einnig er vísað til mögulegra þjóðhagsvarúðarreglna í tengslum við afléttingu gjaldeyrishafta, sem fjallað verður um í kafla 4. um frjálsa fjármagnsflutninga.

Samningskafli 18 um hagtölur fellur einnig undir EES-samninginn en samræmd samantekt hagtalna er mikilvægur þáttur í allri stefnumótun á vettvangi ESB. Ísland leggur í samningsafstöðu sinni áherslu á að viðhalda þeim sérlausnum sem samið hefur verið um á grundvelli samningsins. Ísland fer fram á að þurfa ekki að vinna hagskýrslur um vöruflutninga á vegum, að sleppa framkvæmd könnunar um starfsmiðaða símenntun, og að falla utan þeirrar skyldu að afhenda endurreiknaðar tímaraðir vegna nokkurra reglugerða. Einnig fer Ísland fram á að litið verði til smæðar ríkisins að því er varðar tölfræðilega þætti á borð við tímanleika, tíðni, sundurliðun og nákvæmni. Ísland fer að auki fram á aðlögunartímabil til að ljúka þeim verkefnum sem sett eru fram í aðgerðaáætlun sem fylgir samningsafstöðunni. Samræmd samantekt hagtalna er mikilvægur þáttur í allri stefnumótun og ákvörðunum á vettvangi Evrópusamvinnunnar.

Samningskafli 29 fjallar um tollabandalag Evrópusambandsins og á ríkjaráðstefnunni í morgun kom fram að íslensk löggjöf er í megindráttum í samræmi við regluverk ESB þrátt fyrir að kaflinn standi utan EES-samningsins.  Settir hafa verið á laggirnar tveir starfshópar sem munu leggja fram tímasettar áætlanir er varða breytingu á löggjöf þar sem við á og hönnun og uppsetningu tölvukerfa. Ísland fer fram á að kaflanum verði ekki lokað fyrr en samið hefur verið um málefni er snerta tollamál og eru til umræðu í köflum um landbúnað og utanríkisviðskipti. Ísland áskilur sér jafnframt rétt til að taka tollamálefnin upp í þessum kafla ef svo ber undir. Samningsafstaða Íslands fyrir kafla 29.

Samningaviðræður Íslands og ESB snúast um 33 kafla í löggjöf á mismunandi sviðum. Alls hefur 21 samningskafli verið opnaður og er samningum lokið um 10 þeirra sjá heimasíðu samningaviðræðnanna viðræður.is

Næsta ríkjaráðstefna verður haldin  í desember nk. og verður það hin síðari í formennskutíð Kýpur.
 
Ávarp aðalsamningamanns
Fréttatilkynning ráðherraráðs ESB
Samningsafstaða Íslands: kafli 9, kafli 18, kafli 29

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum