Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2012 Forsætisráðuneytið

Trúverðugleiki Alþingis í húfi

Þjóðin hefur nú tekið afstöðu til fimm mikilvægra tillagna sem stjórnlagaráð afhenti Alþingi og tveir af hverjum þremur kjósendum eru fylgjandi því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.

Um helmingur atkvæðisbærra Íslendinga tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þátttakan var því meiri en títt er um þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál af þessu tagi, til að mynda í Sviss, þar sem rík hefð er fyrir slíkum almennum atkvæðagreiðslum.

Til samanburðar er það einnig í frásögur færandi að þegar sambandslagasamningurinn, sem færði Íslandi fullveldi árið 1918, var borinn undir þjóðina tóku 44% þátt í atkvæðagreiðslunni.

Niðurstöðurnar eru því býsna afgerandi. Þjóðinni hefur nú tekist það sem þinginu hefur ávallt mistekist, að móta Íslandi nýja stjórnarskrá í stað þeirrar sem samþykkt var til bráðabirgða við stofnun lýðveldisins. Við getum öll verið afar stolt af þessu afreki og full ástæða er til að þakka þeim mikla fjölda fólks sem lagt hefur sitt lóð á vogarskálarnar í þessu merka lýðræðisferli, ekki síst meðlimum stjórnlagaráðs.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um síðustu helgi var söguleg og hún markar mikilvæg þáttaskil í því lýðræðislega mótunarferli nýrrar íslenskrar stjórnarskrár sem Alþingi Íslendinga samþykkti að hefja á vormánuðum 2010.

Skyldur okkar við þjóðina

Nú er komið að Alþingi að taka frumvarp að nýrri stjórnarskrá til afgreiðslu. Við það verk eigum við þingmenn að vanda okkur og það munum við gera. Mikill og vandaður undirbúningur hefur þegar farið fram og síðastliðið vor fól stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hópi sérfræðinga að undirbúa frumvarp að nýrri stjórnarskrá á grundvelli tillagana stjórnlagaráðs.

Hópnum var falið að fara yfir lagatæknileg atriði í tillögum stjórnlagaráðs meðal annars með tilliti til alþjóðlegra sáttmála sem íslenska ríkið er skuldbundið af, innra samræmis og fleiri þátta. Þar við bætist að þjóðin sjálf greiddi atkvæði gegn tillögu stjórnlagaráðs um þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrárinnar. Þannig geta komið fram bæði tæknilegar og efnislegar breytingar á tillögum stjórnlagaráðs en stjórnalagaráð opnaði sjálft fyrir svigrúm til breytinga eftir aukafund ráðsins í sumar meðal annars að Alþingi hækkað þröskuldinn vegna þjóðaratkvæðagreiðslna.

Yfir þessi atriði öll þurfum við að fara og kappkosta að sem víðtækust sátt verði um útkomuna, bæði innan þings og utan. Ég hef fulla trú á því að slík sátt náist um málið. Við erum komin á þann stað að öllum má vera ljóst að tillaga stjórnlagaráðs verður alltaf grundvöllur að nýrri stjórnarskrá Íslands og ákvæðum þar ætti ekki að breyta nema til þess standi sterk og efnisleg rök.

Ný stjórnarskrá 17. júní 2013

Um hálft ár er til alþingiskosninga og það er skylda okkar alþingismanna að standa þannig að málum að í þeim kosningum geti þjóðin kveðið upp sinn endanlega dóm um nýja fullbúna stjórnarskrá sem sitjandi þing hefur samþykkt fyrir sitt leyti. Um þetta verkefni eigum við að sameinast hvar í flokki sem við stöndum. Takist okkur það gæti ný stjórnarskrá hæglega tekið gildi strax á næsta ári. Vel færi á því að það yrði þann 17. júní líkt og núverandi stjórnarskrá gerði fyrir um 69 árum síðan.

Standist þingið þessa prófraun spái ég því að það muni reynast einn mikilvægasti áfangi okkar í að endurreisa traust þjóðarinnar á þessari merku stofnun eftir ágjöf undangenginna ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum