Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. október 2012 Forsætisráðuneytið

Úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur skipað nefnd sem gera á úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setja fram tillögur um hvernig styrkja megi stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem í atvinnuskyni veita einstaklingum neytendalán. Nefndin er skipuð í samræmi við þingsályktunartillögu Alþingis um sama efni.

Nefndin er þannig skipuð:

Guðbjörg Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, formaður. Varaformaður er Ágúst Ólafur Ágústsson, ráðgjafi forsætisráðherra í efnahags- og atvinnumálum.

  • Einar Árnason, aðstoðarmaður innanríkisráðherra.
  • Björg Fenger, sérfræðingur í velferðarráðuneyti.
  • Aðalsteinn Sigurðsson, fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna.
  • Jónas Guðmundsson, fulltrúi Neytendasamtakanna.

Í umræddri þingsályktunartillögu kemur fram að nefndin skuli skoða verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana sérstaklega og gera tillögur um breytingar ef þörf krefur. Tillögur nefndarinnar skuli miða að því að bæta og skýra stöðu einstaklinga og heimila gagnvart aðilum á fjármálamarkaði sem veita einstaklingum lán og auka ábyrgð þeirra gagnvart þessum hópi neytenda. Við tillögugerðina hafi nefndin hliðsjón af stöðu neytenda samkvæmt reglum Evrópusambandsins og líti til framkvæmdar neytendaverndarmála annars staðar Norðurlöndum. Nefndin skal jafnframt taka til sérstakrar skoðunar þann kostnað sem leggst á viðskiptavini fjármálafyrirtækja (e. switching costs) við flutning viðskipta á milli þeirra í samræmi við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda gagnvart ESA.

Gert er ráð fyrir því að nefndin hafi gott samstarf við Neytendastofu, talsmann neytenda, umboðsmann skuldara, Fjármálaeftirlitið, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök lánþega og Samkeppniseftirlitið og helstu samtök launafólks. Mælst er til þess að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 15. janúar 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum