Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. október 2012 Forsætisráðuneytið

Fundir norrænna forsætisráðherra og leiðtogahluti Norðurlandaráðsþings

Fundur norrænu forsætisráðherranna
Fundur norrænu forsætisráðherranna

Norrænu forsætisráðherrarnir funduðu í dag í Helsinki og áttu einnig fund með leiðtogum sjálfsstjórnarsvæðanna.  Norrænu forsætisráðherrarnir ræddu meðal annars samstarf á Norðurslóðum, hindranir sem borgarar Norðurlanda þurfa að glíma við þegar flust er milli norrænna ríkja og eftirfylgni verkefna á sviði græns vaxtar og sjálfbærni, sem verið hefur í þróun í norrænu samstarfi.  Sérstök umræða var um samstarf í öryggis- og varnarmálum, en Svíar og Finnar hafa sýnt áhuga á að taka þátt í loftrýmisgæslu hér við land í tengslum við loftrýmisgæslu Norðmanna sem verður snemma ársins 2014.  Umræða hefur verið í stjórnkerfi og innan þings beggja ríkja um slíka þátttöku og liggur fyrir að báðar þjóðir eru jákvæðar gagnvart þátttökunni.  Utanríkisráðherrar munu ræða málið frekar á fundi sínum á morgun.

Síðdegis voru forsætisráðherrarnir viðstaddir upphaf 64. þings Norðurlandaráðs, sem nú fagnar 60 ára afmæli sínu. Forsætisráðherrarnir tóku þar þátt í leiðtogahluta þingsins, þar sem forsætisráðherrar fluttu erindi og sátu fyrir svörum. Forsætisráðherra lagði áherslu á viðbrögð velferðarsamfélagsins þegar kreppir að á efnahagssviðinu og minnti á mikilvægi þess að grunnstoðum og mikilvægri samfélagsþjónustu, eins og heilbrigðismálum, menntamálum og löggæslu, væri hlíft eins og mögulegt er þegar beita þyrfti niðurskurði. Þannig næðist að tryggja hag allra og komið væri í veg fyrir stéttaskiptingu og ójöfnuð.

Í lokin kynnti Svíþjóð formennskuáætlun sína fyrir næsta ár, en Svíþjóð tekur við formennsku í norrænu ráðherranefndinni um áramót. Áhersla Svía mun m.a. snúa að ungu fólki og atvinnumálum, auk sjálfbærni og umhverfisvernd á formennskutímanum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum