Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. nóvember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um fullnustu refsinga til kynningar

Innanríkisráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um fullnustu refsinga. Unnt er að senda umsagnir um drögin til 12. nóvember og skulu þau send á netfangið [email protected].

Markmið frumvarps til gildandi laga var meðal annars að gera reglur skýrari og styrkja lagastoð ýmissa fullnustuákvæða. Lög um fullnustu refsinga er löggjöf um réttindi fanga og skyldur þeirra. Þá fjallar löggjöfin um fullnustu óskilorðsbundinna refsinga en frelsissvipting er ein þungbærasta byrði sem lögð er á herðar einstaklingum og viðurkennd er í samfélaginu. Í ljósi þessa er mikilvægt að löggjöf sem þessi sé skýr svo að frelsissviptir einstaklingar og þeim sem að öðru leyti hefur verið gert að sæta refsingu öðlist réttmætar væntingar við lestur laganna. Því var reynt að hafa athugasemdir með einstökum greinum ítarlegar og í stað þess að vísa til eldri laga þá voru athugasemdir teknar úr eldri frumvörpum og þær settar inn í frumvarp þetta í þeim tilvikum er ákvæði voru tekin óbreytt úr eldri löggjöf. 

Þá er það enn fremur markmið frumvarpsins að fullnusta refsinga fari fram þannig að réttaröryggi almennings sé tryggt sem og sérstök og almenn varnaðaráhrif refsinga. Loks er það markmið frumvarpsins að draga úr líkum á endurkomu fanga í fangelsi, styðja þá til vímulauss lífernis svo sem með því að viðhalda og bæta menntun þeirra. Þá er í drögum að frumvarpinu komið til móts við ábendingar umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar um annmarka á núgildandi lögum.

Markmið með fullnustu refsinga á öðru fremur að felast í undirbúningi dómþola að virkri þátttöku í samfélaginu og draga sem mest úr þeim skaða sem útilokun frá samfélaginu hefur óhjákvæmilega í för með sér. Í ljósi vaxandi fjölda dóma og jákvæðrar reynslu af beitingu refsiúrræða utan fangelsa er rétt að huga enn frekar að úrræðum af því tagi án þess þó að vegið sé að réttaröryggi almennings. Mjög mikilvæg skref voru stigin með frumvarpi til breytinga á lögum um fullnustu refsinga sem lagt var fram á Alþingi á árinu 2011 og samþykkt var þann 16. september sama ár. Með því frumvarpi var, eins og áður hefur komið fram, veitt heimild til notkunar rafræns eftirlits sem fullnustuúrræðis sem og rýmkun á samfélagsþjónustu. Ljóst er að reynist rafrænt eftirlit vel eins og það var lagt upp með er rétt að beita því í auknum mæli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira