Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. nóvember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samráðsferli ESB um eftirfylgni Ríó+20 ráðstefnunnar

Merki Ríó+20 ráðstefnunnar.
Merki Ríó+20 ráðstefnunnar.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur sett af stað samráðsferli á netinu þar sem óskað er eftir hugmyndum og skoðunum almennings á því hvernig fylgja eigi eftir samþykktum Ríó+20 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin var í Ríó de Janeiro í júní síðastliðnum.

Ráðstefnan hafði það að markmiði að koma á nýjum skuldbindingum þjóða heims sem myndu stuðla að sjálfbærri þróun. Til að fylgja samþykktum ráðstefnunnar eftir hyggst framkvæmdastjórn ESB grípa til aðgerða sem eiga að ýta undir sjálfbærni og útbúa mælikvarða um árangur á sama sviði.

Markmið samráðsferlisins nú er að safna saman skoðunum og hugmyndum almennings varðandi þetta. Þær verða síðan notaðar í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar sem ætlað er að fylgja ráðstefnunni eftir og væntanleg er í byrjun árs 2013. Skýrslan getur svo leitt til frekari aðgerða eða reglusetningar á þessu sviði.

Óskað er eftir hugmyndum og tillögum um fimm atriði sérstaklega:

  • stefnumörkun varðandi „græna hagkerfið“ sem stuðla á að sjálfbærni innan ESB og á alþjóðavísu;
  • hvernig forgangsraða eigi málaflokkum, s.s. baráttu gegn fátækt, sjálfbærum landbúnaði, vatnsmálum, sjálfbærri orku, rétt til atvinnu, hafi og fiskveiðum, sjálfbærri neyslu og framleiðslu;
  • hvernig þróa eigi áfram markmið fyrir sjálfbærni og hvernig eigi að fylgjast með árangri á því sviði;
  • hvaða valkostir eru fyrir skilvirkar fjármögnunarleiðir til að ýta undir sjálfbæra þróun;
  • hvernig styrkja megi stofnana- og stjórnunarumhverfi fyrir sjálfbæra þróun innan Umhverfisstofnunar Evrópu og meðal æðstu ráðamanna sambandsins.  

Samráðsferlið varir til 15. janúar 2013.

Leiði samráðið til breytinga á reglum ESB varðandi sjálfbæra þróun kann það að hafa áhrif á íslenskan rétt vegna EES samningsins.

Samráðsferli ESB um eftirfylgni Ríó+20 ráðstefnunnar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum