Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. nóvember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra heimsækir stofnanir og verkefni á Hvanneyri

Úr heimsókn ráðherra í Vesturlandsskóga.
Úr heimsókn ráðherra í Vesturlandsskóga.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, heimsótti Vesturlandsskóga og starfsstöðvar Landgræðslunnar og Veiðimálastofnunar á Hvanneyri í gær. Vesturlandsskógar og Veiðimálastofnun eru meðal þeirra verkefna og stofnana sem fluttust til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við breytingar á stjórnarráðinu 1. september síðastliðinn.

Heimsóknin hófst á fundi með starfsmönnum Veiðimálastofnunar á Hvanneyri en áður hefur ráðherra heimsótt höfuðstöðvar stofnunarinnar í Reykjavík. Á fundinum kynntu starfsmenn ráðherra það starf sem unnið er á vegum stofnunarinnar á Hvanneyri, en það lýtur m.a. að vöktun og rannsóknum á fiskistofnum í þeim fjölmörgu veiðiám sem er að finna á svæðinu.

Að því loknu var fundað með starfsmönnum Landgræðslunnar á Hvanneyri þar sem ráðherra fræddist m.a. um uppgræðslustarf bænda undir yfirskriftinni Bændur græða landið og um varnir gegn landbroti á vegum Landgræðslunnar.

Í síðari hluta heimsóknarinnar fór ráðherra ásamt stjórn og starfsfólki Vesturlandsskóga um ólík skógræktarsvæði verkefnisins í Borgarfirði og heilsaði upp á nokkra þeirra heimamanna sem stunda skógrækt.  Að lokum gafst tækifæri til umræðna við stjórnendur verkefnisins um skógræktarmál.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum