Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. nóvember 2012 Forsætisráðuneytið

A-456/2012. Úrskurður frá 15. nóvember 2012

ÚRSKURÐUR


Hinn 15. nóvember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-456/2012.

Kæruefni og málsatvik


Með bréfi, dags. 15. október 2012, kærði [A] þá ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja beiðni hans, dags. 24. september, um aðgang að tölum í samningi bæjarins við [B] ehf. vegna sorpförgunar og sorphirðu.

Beiðni kæranda var svarað með bréfi þann 9. október þar sem umræddir samningar voru afhentir en í bréfinu kemur fram að af viðskiptalegum ástæðum hafi allar tölur verið þurrkaðar út samkvæmt heimild í upplýsingalögum.

 

Málsmeðferð


Kæran var send Vestmannaeyjabæ með bréfi, dags. 17. október, til umsagnar.   

Svar Vestmannaeyjabæjar barst með bréfi, dags. 31. október. Þar segir að bærinn rökstyðji ákvörðun sína með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem segi m.a. að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja, nema með samþykki þess sem í hlut eigi. Ekki liggi fyrir samþykki [B] ehf. um að gögn samningsins verði gerð opinber auk þess sem það sé mat Vestmannaeyjabæjar að eðli samningsins sé slíkt að hagsmunir [B] ehf. séu töluverðir í þessu sambandi. Á þeim forsendum hafi tölur verið þurrkaðar út í samningnum.

Með bréfi Vestamannaeyjabæjar fylgdu tveir samningar.

Umsögn Vestmannaeyjabæjar var send kæranda til athugasemda. Svar kæranda barst 8. nóvember en þar er kæran ítrekuð og fram kemur að hagsmunir íbúa Vestmannaeyjabæjar hljóti að vega þyngra en hagsmunir [B] ehf.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.


Niðurstaða


1.
Mál þetta varðar aðgang kæranda að samningsfjárhæðum sem fram koma í tveimur samningum Vestmannaeyjabæjar við fyrirtækið [B] ehf. vegna sorphirðu og sorpförgunar í Vestmannaeyjabæ. Jafnframt er í samningunum að finna upplýsingar um fjárhæð verktrygginga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafa verið afhentir umræddir samningar og hefur nefndin kynnt sér efni þeirra ítarlega. Ekki liggur fyrir samþykki fyrirtækisins [B] ehf. á því að samningarnir verði afhentir án þeirra útstrikana sem í þeim voru þegar þeir voru afhentir kæranda.

Annars vegar er um að ræða samning Vestmannaeyjabæjar við verktakann [B] ehf., dags. 30. ágúst 2012, vegna sorpförgunar í Vestmannaeyjabæ en samningurinn var gerður í kjölfar útboðs á þjónustunni. Fram kemur að verkefnið sé að taka á móti, flokka og ráðstafa sorpi frá heimilum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjabæ, rekstur á söfnunar- og flokkunarstöð og sköpun aðstöðu vegna þess, jarðgerð vegna lífræns úrgangs og rekstur á urðunarstað sem og flutningur á því sorpi sem þurfi að flytja frá Vestmannaeyjabæ. Í 3. gr. samningsins er fjallað um samningsfjárhæð. Í umræddu ákvæði kemur fram hver samningsfjárhæð sé og að hún sé samkvæmt tilboði verktaka með leiðréttingum samkvæmt ákvæðum útboðsgagna. Í 2. gr. kemur fram fjárhæð verktryggingar.

Hins vegar er um að ræða samning Vestmannaeyjabæjar við verktakann [B] ehf., dags. 30. ágúst 2012, vegna sorphirðu í Vestmannaeyjabæ, en samningurinn var gerður í kjölfar útboðs á þjónustunni. Fram kemur að verkefnið sé að hirða sorp frá heimilum í Vestmannaeyjabæ og skila á söfnunar- og flokkunarstöð og sköpun aðstöðu vegna þess. Í 3. gr. samningsins er fjallað um samningsfjárhæð. Í umræddu ákvæði kemur fram hver samningsfjárhæð sé og að hún sé samkvæmt tilboði verktaka með leiðréttingum samkvæmt ákvæðum útboðsgagna. Í  2. gr. kemur fram fjárhæð verktryggingar.

2.
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir m.a.: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Í reglunni birtist meginregla laganna um upplýsingarétt almennings. Sætir hún undantekningum samkvæmt 4.-6. gr. sömu laga. Samkvæmt hefðbundnum viðhorfum um túlkun laga verða þær undantekningar ekki skýrðar rúmt.

Vestmannaeyjabær hefur byggt synjun á aðgangi að þeim upplýsingum sem kæra málsins beinist að á 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, nánar tiltekið á því að í umræddum gögnum komi fram upplýsingar sem varði mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni þess fyrirtækis sem umræddir samningar voru gerðir við, þ.e. [B] ehf., um sorphirðu og sorpförgun í Vestmannaeyjabæ.

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila  sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram komi í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Ber ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra: hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344).

Í máli þessu ber því að leysa úr því hvort viðskiptahagsmunir fyrirtækisins [B] ehf. standi í vegi fyrir aðgangi kæranda að umbeðnum upplýsingum samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga.

3.
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fengið afhent afrit af umræddum samningum, að því undanskildu að strikað hefur verið yfir tölur.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að umræddar upplýsingar varða með beinum hætti ráðstöfun opinberra hagsmuna. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr., geta hagsmunir almennings af því að fá aðgang að slíkum upplýsingunum vikið til hliðar viðskiptalegum hagsmunum viðsemjenda ríkis eða sveitarfélaga, enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi beinu tjóni verði upplýsingarnar gerðar opinberar. Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið að upplýsingar um umsamið endurgjald hins opinbera til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Hefur í því sambandi einnig verið litið til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum A-74/1999, A-133/2001 og A-229/2006, svo dæmi séu tekin. Í þessu ljósi telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að samningar Vestmannaeyjabæjar við [B] ehf. um sorphirðu og sorpförgun í Vestmannaeyjabæ, báðir dags. 30. ágúst 2012, hafi ekki að geyma upplýsingar af því tagi að þær falli undir undantekningarákvæði 5. gr. upplýsingalaga og því eigi kærandi  rétt á aðgangi að samningnum í heild sinni, án útstrikana.

Úrskurðarorð


Vestmannaeyjabæ ber að afhenda kæranda, [A], samninga Vestmannaeyjabæjar við [B] ehf., báðir dags. 30. ágúst 2012, vegna sorphirðu og sorpförgunar í Vestmannaeyjabæ, án útstrikana.



Trausti Fannar Valsson
formaður



                       Sigurveig Jónsdóttir                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum