Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. nóvember 2012 Forsætisráðuneytið

Meiri áskorun að breyta hugarfarinu og sýn á fatlað fólk en að breyta lagabókstaf

Mannréttindi í framkvæmd er yfirskrift ráðstefnu sem haldin var í gær um fötlunarrannsóknir. Að henni staðnda Félag um fötlunarrannsóknir og félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi ráðstefnunnar og sagði hann umræðuefni dagsins til þess fallin að nýtast til að hlúa betur að réttindum fatlaðs fólks. ,,Margt hefur verið gert en betur má ef duga skal,” sagði ráðherra.

Ögmundur Jónasson ávarpaði ráðstefnuna mannréttindi í framkvæmd.
Ögmundur Jónasson ávarpaði ráðstefnuna mannréttindi í framkvæmd.

Tveir írskir sérfræðingar í málefnum fatlaðra fluttu erindi, þær Eilinonóir Flynn og Anna Arstein-Kerslake, Freyja Haraldsdóttir og Embla Ágústsdóttir frá NPA miðstöðinni ræddu um innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð og í lokin ræddu Gísli Björnsson háskólanemi, Rúnar Björn Þorkelsson háskólanemi, Aldís Sigurðardóttir móðir, Ragnar Gunnar Þórhallsson deildarstjóri og Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir háskólanemi um hvaða þýðingu NPA hefði fyrir daglegt líf fatlaðs fólks.

Innanríkisráðherra sagði í upphafi ávarps síns að með yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga væri stigið skref til að færa framkvæmdina nær þeim sem eiga rétt á þjónustunni. Hann sagði eitt verkefnanna vera fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem innanríkisráðuneytið sæi um.

,,Þetta er ekki tilviljun, enda ber innanríkisráðuneytið ábyrgð á mannréttindum sem málaflokki og er þessi niðurstaða Alþingis í samræmi við þá hugsun að samningur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi fatlaðs fólks snúist um að tryggja tilteknum hópi samfélagsins þau réttindi sem þeim ber – að koma mannréttindum fatlaðs fólks til framkvæmda.

Í samningnum er kveðið á um fjölmörg atriði sem krefjast sum lagabreytinga. Önnur aðeins hugarfarsbreytinga. Reyndar má snúa þessu við og segja að sum krefjist hugarfarsbreytingar en annað aðeins lagabreytingar þar sem ég hygg að í sumum tilvikum sé það meiri áskorun að breyta sýn kerfisins, þjóðfélagsins og ekki síst okkar sjálfra á fötlun og fatlað fólk en að breyta lagabókstaf.”

Ögmundur Jónasson ávarpaði ráðstefnuna mannréttindi í framkvæmd.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum