Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. nóvember 2012 Innviðaráðuneytið

Margar og samverkandi skýringar á fækkun umferðarslysa

Umferðarþing fer fram í Reykjavík í dag og við setningu þess í morgun flutti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarp og fagnaði meðal annars þeirri ánægjulegu þróun að banaslysum í umferðinni hefði fækkað undanfarin ár. Umferðarljósið, viðurkenning fyrir framlag til umferðaröryggis, var afhent og að þessu sinni hlaut það fréttavefurinn mbl.is fyrir vandaða og ítarlega umfjöllun á þessu sviði.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu umferðarþings í morgun.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu umferðarþings í morgun.

Í upphafi ávarps síns gat innanríkisráðherra um athöfn við bráðamóttöku Landspítalans í Fossogi í gær þar sem minnst var þeirra sem látist hafa í umferðarslysum. Bað hann viðstadda að rísa úr sætum til að votta þeim virðingu sína. Í ávarpi sínu sagði innanríkisráðherra að margar og samverkandi skýringar væru á fækkun umferðarslysa. Til dæmis aðgerðir í umferðaröryggismálum, skynsamlegri akstur sem rekja mætti meðal annars til hækkandi eldsneytisverðs og þess að okkur þættu slysin hörmuleg og vildum ekki taka neina áhættu, einnig hugarfarsbreytingar, meðal annars þess að almenningssamgöngur væru taldar sífellt skynsamlegri farkostur.

Ráðherra sagði margt áhugavert verða tekið til umræðu á umferðarþingi og nefndi gagna- og upplýsingasöfnun Vegagerðarinnar og upplýsingakerfi hennar og sagði hann Vegagerðina vera í fararbroddi í nýtingu rafrænna lausna í þjónustu sinni við landsmenn. Hægt væri að fletta upp á vef Vegagerðarinnar og fá á einu andartaki upplýsingar um ástand vega, veður og umferð og sagði hann Vegagerðina þannig mikilvægan hlekk í samgöngukeðjunni.

Umferðarþing er haldið í Reykjavík í dag.

Umferðarljósið afhent í 10. sinn

Umferðarljósið var afhent á umferðarþingi og nú í 10. sinn. Umferðarljósið er viðurkenning til handa þeim sem hafa lagt sérstaklega mikið að mörkum til aukins umferðaröryggis í landinu. Fulltrúar Umferðarráðs velja fyrir hvert Umferðarþing þann sem talinn er verðugur þess að hljóta þessa viðurkenningu. Að mati ráðsins hafa umfjallanir mbl.is verið sérlega vandaðar og ítarlegar og gert fréttamenn Morgunblaðsins verðuga viðtakendur Umferðarljóssins. Þetta mat byggir einkum á greinarflokki sem sjá mátti á mbl.is fyrr á þessu ári og hét ,,Váin á vegunum” en blaðamaðurinn Una Sighvatsdóttir veitti þeim skrifum forstöðu.

Fréttavefurinn mbl.is fékk viðurkenninguna Umferðarljósið fyrir framlag sitt til aukins umferðaröryggis.Sigurður Helgason, framkvæmdastjóri umferðarráðs, kynnti niðurstöðuna og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Karl V. Matthíasson, formaður umferðarráðs, afhentu Guðrúnu Háldanardóttur, fréttastjóra mbl.is, og Unu Sighvatsdóttur blaðamanni viðurkenninguna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum