Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. desember 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Styrkveiting úr Vísindasjóði Landspítala og undirritun samstarfssamnings

Kristin-Ingolfsdottir-og-Bjorn-Zoega
Kristin-Ingolfsdottir-og-Bjorn-Zoega

Þrír rannsóknarhópar á Landspítala fengu fimm milljóna króna styrk hver úr Vísindasjóði Landspítala við athöfn á spítalanum í vikunni og einnig var undirritaður samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Landspítala. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ræddi um mikilvægi mennta- og heilbrigðismála í ávarpi af þessu tilefni.

Samstarfssamningurinn milli Landspítala og Háskóla Íslands sem Björn Zoëga, forstjóri spítalans, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor háskólans, undirrituðu tekur við af samstarfssamningi sem gerður var í apríl 2006. Samningurinn markar stefnu fyrir áframhaldandi samstarf  LSH og HÍ við uppbyggingu þjónustu, kennslu og rannsókna í greinum heilbrigðisvísinda og öðrum skyldum greinum. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra flutti ávarp við þetta tilefni. Hann sagði samninginn endurspegla hlutverk Landspítala sem einnar virkustu menntastofnunar landsins og ræddi mikilvægi þeirra tengsla sem eru á milli Háskóla Íslands og sjúkrahússins, Landspítala háskólasjúkrahúss á sviði kennslu og vísinda í heilbrigðisfræðum. 

Styrkir úr Vísindasjóði Landspítala voru veittir í þriðja sinn en þeir bjóðast aðeins sterkum rannsóknarhópum á spítalanum sem þegar hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Ellefu umsóknir bárust. Forystumenn rannsóknarhópanna þriggja kynntu rannsóknir sínar. Dr. Davíð O. Arnar, yfirlæknir og klínískur prófessor, sagði frá rannsóknum á gáttatifi, dr. Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur og prófessor, kynnti rannsókn á virkum þáttum meðferðar í ósérhæfðri hugrænni atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi og dr. Þórarinn Guðjónsson, náttúrufræðingur og prófessor, kynnti rannsókn á stofnfrumum í þekjuvef brjóstkirtils.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum