Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. desember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um handtöku og afhendingu manna til umsagnar

Innanríkisráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar. Unnt er að senda umsagnir um drögin til 11. janúar 2013 og skulu þau send á netfangið [email protected].

Með frumvarpinu er gerð tillaga um heildarlöggjöf um skilyrði handtöku og afhendingar manna vegna refsiverðrar háttsemi á milli Íslands annars vegar og Norðurlandanna og aðildarríkja Evrópusambandsins hins vegar. Með frumvarpinu er lagt til að sameinuð verði í einni löggjöf ákvæði laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun) og ný lagaákvæði er leiða af skuldbindingum Íslands vegna hinnar svokölluðu evrópsku handtökuskipunar.

Í frumvarpinu er gerð tillaga að nýju fyrirkomulagi varðandi afhendingu sakamanna milli ríkja sem kemur í stað hefðbundins framsalsfyrirkomulags og byggist á gagnkvæmri viðurkenningu og trausti ríkja á réttarkerfum hvers annars. Þörfin á nýju fyrirkomulagi um framsal byggist m.a. á því að í auknum mæli eru afbrot skipulögð og ganga þvert á landamæri. Árangursrík barátta gegn afbrotum á svæði þar sem frjáls för fólks ríkir gerir þá kröfu að eitt ríki setji ekki upp hindranir vegna rannsóknar eða málsmeðferðar í sakamálum. Afhendingarfyrirkomulagið á þannig að vera árangursríkara tæki í baráttu gegn afbrotum.

Hið nýja fyrirkomulag sem kveðið er á um er í nokkrum grundvallaratriðum ólíkt því sem nú er. Í fyrsta lagi er hugtakinu „framsal“ skipt út fyrir orðið „afhending“ til að leggja áherslu á að um fljótvirkara kerfi er að ræða. Í öðru lagi verður það ríkissaksóknari en ekki ráðuneytið sem gefur út og tekur á móti handtökuskipun og ákveður hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu eða ekki. Í þriðja lagi gilda styttri tímafrestir um málsmeðferð og afhendingu.

Helstu atriði frumvarpsins er varðar evrópsku handtökuskipunina eru eftirfarandi:

  1. Framfylgt er meginreglunni um tvöfalt refsinæmi sem þýðir að brot sem stendur að baki afhendingarbeiðni verður að vera refsivert skv. íslenskum lögum. Hins vegar gerir frumvarpið ráð fyrir undantekningum frá meginreglunni að því er varðar tiltekin afbrot eins og þeim er nánar lýst í 8. gr. frumvarpsins.
  2. Gert er ráð fyrir þeirri meginreglu að Ísland afhendi eigin ríkisborgara, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
  3. Heimilt verður að synja um afhendingu á manni vegna stjórnmálaafbrota, sbr. 11. gr. frumvarpsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum