Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. desember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar gerðar á nýrri byggingarreglugerð

Byggingakranar.
Byggingakranar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur undirritað breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem birt verður í B-deild Stjórnartíðinda á næstu dögum. Í kjölfar birtingar reglugerðarinnar verður hægt að nálgast byggingarreglugerðina með nýjustu breytingum á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Áformaðar breytingar á 9. hluta reglugerðarinnar um varnir gegn eldsvoða eru enn í vinnslu og verða kynntar sérstaklega síðar.

Yfirlit yfir helstu breytingar á byggingarreglugerð nú eru eftirfarandi:

  • Kveðið er á um að gætt sé ákvæða laga um menningarminjar þegar sótt er um leyfi fyrir breytingu á þegar byggðu mannvirki sem fellur undir þau lög.
  • Breytt ákvæði um gildistíma samþykktra byggingaráforma.
  • 3.6.3. gr. og 4.8.3. gr. um greinargerðir hönnuða eru sameinaðar.
  • Við 6.1.5. gr. bætist ný málsgrein sem ætlað er að auka sveigjanleika vegna umsókna um breytingar á þegar byggðum mannvirkjum. Leyfisveitandi getur, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita.
  • Ákvæði um breidd gönguleiðar að mannvirkjum breytist og skal vera að lágmarki 1,6 m, en 1,8 m þar sem vænta má mikillar umferðar.
  • Stærð bílastæða hreyfihamlaðra breytist og skal að lágmarki vera 3,8 m x 5,0 m. Eitt af hverjum fimm bílastæðum fyrir hreyfihamlaða, þó aldrei færri en eitt, skal vera 4,5 m x 5,0 m með 3 m löngu athafnasvæði við endann.
  • Sett eru skýrari ákvæði um bílastæði fyrir hreyfihamlaða í bílgeymslum. Slík stæði skulu ávallt vera í bílgeymslum sem almenningur hefur aðgang að. Meta skal hverju sinni hvort unnt er að koma slíkum stæðum fyrir í sameiginlegum bílgeymslum íbúðarhúsa í samræmi við fyrirkomulag eignarhalds í bílgeymslunni. Fækka má bílastæðum á lóð mannvirkis sem nemur fjölda sérmerktra stæða fyrir hreyfihamlaða í sameiginlegri bílgeymslu, enda sé tryggt að gestkomandi hafi ávallt aðgang að hluta stæðanna.
  • Ákvæði um breidd dyra/hurða breytast þannig að í stað þess að kveðið sé á um að hindrunarlaust umferðarbreidd eigi að vera 0,87 m og samsvarandi hæð minnst 2,07 m, er nú kveðið á um að breidd hurðarblaða eigi að vera 0,90 m x 2,10 m.
  • Lágmarkslengd milli svæða til mætingar hjólastóla (1,8 m x 1,8 m) á göngum bygginga sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar, þar sem umferð telst fremur lítil, lengist úr 5 m í 10 m.
  • Fellt er niður ákvæði um að anddyri íbúða sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skuli vera 1,8 m x 1,8 m að stærð. Áfram gildir almenna reglan um að í andyri skuli vera hindrunarlaust svæði a.m.k. 1,5 m x 1,5 m að stærð.
  • Lítilsháttar breytingar á ákvæðum um breidd stiga.
  • Kröfur um lágmarksstærð aukalyftu í 6.4.13. gr. felldar niður en áfram kveðið á um að þær skuli henta til notkunar fyrir fólk í hjólastól.
  • Breytt orðalag 6.7.8. gr. um íbúðarherbergi og sveigjanleiki aukinn. Fellt niður ákvæði um að a.m.k. eitt svefnherbergi í íbúðum stærri en 55 m2 (nettó) skuli vera 14 m2. Stærð skal vera í samræmi við þær innréttingar og húsgögn sem gert er ráð fyrir að verði í viðkomandi herbergi. Sýna þarf fram á aðgengi hreyfihamlaðra í tilteknum hluta íbúðarherbergja.
  • Krafa um viðbótar snyrtingu í íbúðum stærri en 110 m2 (nettó) felld niður.
  • Ákvæði um tiltekna lágmarksstærð sameiginlegra bað- og þvottaherbergja felld niður, en sýnt skal fram á að kröfur um aðgengi hreyfihamlaðra séu uppfylltar.
  • Breytt ákvæði um fjölda salerna í skólum, samkomustöðum, á veitingastöðum og í öðrum byggingum sem almenningur hefur aðgang að.
  • Lítilsháttar breytingar á ákvæðum 6.10.4. gr. um stúdentagarða.
  • Nýtt ákvæði um starfsmannabúðir.
  • Skýrari framsetning ákvæða um loftgæði og loftræsingu í 10. hluta reglugerðarinnar.
  • Ákvæði 13. hluta um einangrun breytast og verða efnislega eins og ákvæði eldri byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Skýrt er kveðið á um að útreikningur á heildarleiðnitapi skuli ávallt fylgja hönnunargögnum sem afhent eru leyfisveitanda.
  • Heimild 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða til að leyfa að fylgt sé ákvæðum eldri byggingarreglugerðar með tilteknum skilyrðum er framlengd til 15. apríl 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum