Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. desember 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Synjað um undanþágu

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið tilkynnti í dag Skaftárhreppi þá fyrirætlun sína að hafna umsókn hreppsins um undanþágu frá starfsleyfi sorpbrennslu sveitarfélagsins. Skaftárhreppur hefur nú frest til 11. janúar nk. til að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun.

Starfsleyfi núverandi sorpbrennslu Skaftárhrepps rann úr gildi þann 12. desember síðastliðinn en í lok nóvember óskaði sveitarfélagið eftir undanþágu til að starfrækja brennsluna án starfsleyfis til ársins 2015.

Fyrir liggur að núverandi brennsluofn er ekki tæknilega hæfur til að uppfylla reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs eftir að sérákvæði fyrir starfandi brennslustöðvar fellur úr gildi 1. janúar 2013. 

Ráðherra hefur ekki heimild samkvæmt lögum til að veita undanþágu frá einstökum ákvæðum reglugerðarinnar en getur hins vegar veitt undanþágu frá starfsleyfi ef ríkar ástæður mæla með því. Meginviðmið við afgreiðslu slíkra mála er að fyrir liggi umsókn um starfsleyfi sem sé til umfjöllunar hjá viðkomandi starfsleyfisútgefanda. Þá þurfa ríkar ástæður að vera fyrir hendi til að undanþága sé veitt, s.s. að ekki sé mögulegt að meðhöndla úrganginn með öðrum hætti.

Skaftárhreppur sótti um nýtt starfsleyfi í maí sl. til Umhverfisstofnunar en skilaði ekki fullnægjandi gögnum til að umsóknin teldist gild. Umsókninni var því hafnað og er umsóknarferli ekki í gangi hvað varðar nýtt starfsleyfi brennslustöðvar Skaftárhrepps.

Sú lagalega skylda hvílir á sveitarstjórnum að sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Ráðuneytið bendir á að sveitarfélagið getur sinnt þessari skyldu eitt sér eða í samvinnu við önnur sveitarfélög. Samkvæmt lögum hefur sveitarfélagið allmikið svigrúm til að ákveða með hvaða hætti meðhöndlun úrgangs fer fram í sveitarfélaginu en ber ábyrgð á því að hún sé í samræmi við lög og reglugerðir.

Ráðuneytið telur rétt að árétta að ríkar ástæður eru fyrir því að sérákvæði um eldri brennslustöðvar fellur úr gildi frá og með næstu áramótum. Þannig munu viðmið sem kveðið er á um í Evróputilskipun um brennslu úrgangs, sem tók gildi árið 2000 og innleidd hefur verið hér á landi á grundvelli EES-samningsins, gilda um allar brennslustöðvar hér á landi. Þau efni sem stöðvarnar gefa frá sér og viðmiðin taka til eru mörg hver sérlega skaðleg heilsu manna, s.s. díoxín sem m.a. er talið krabbameinsvaldandi. Í mælingu sem gerð var í janúar árið 2011 á útblæstri brennslustöðvarinnar á Kirkjubæjarklaustri reyndist styrkur þess efnis vera 58-föld þau losunarmörk sem gilda eiga eftir 1. janúar 2013. Tilgangur reglugerðarinnar er því fyrst og fremst að reyna að draga úr heilsufarslegri hættu íbúa sveitarfélaga vegna brennslu úrgangs þar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum