Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. desember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkti viðbótarfjárveitingu vegna gildistöku barnalaga

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun viðbótarfjárveitingu vegna breytingar barnalaga sem samþykkt voru á Alþingi fyrir jólin og taka eiga gildi um áramót. Samþykkt var allt að 30 milljóna króna viðbótarfjárveiting á næsta ári. Heildarfjárveiting til að hrinda í framkvæmd breytingum á barnalögum verður því 60 milljónir króna.

Jafnframt var samþykkt að verkefninu skuli tryggð 60 milljóna króna árleg fjárveiting frá og með fjárlögum ársins 2014 sem er í samræmi við mat innanríkisráðuneytisins og fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á kostnaðarauka vegna lagabreytingarinnar.

Meðal breytinga á barnalögum sem taka gildi um áramótin eru ákvæði um sáttameðferð sem snúast um að hjálpa foreldrum til að finna leiðir til að leysa ágreining um málefni barns eftir því sem barni er fyrir bestu. Verður sýslumannsembættum falið að annast þessi verkefni. Samkvæmt áætlunum ráðuneytisins er reiknað með að ráða þurfi í allt að 5,5 stöðugildi á landsvísu til að annast slíka sáttameðferð og ráðgjöf við foreldra. Gera útreikningar ráð fyrir að heildarkostnaður vegna þessa nemi kringum 60 milljónum króna. Við aðra umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi var óskað eftir 30 milljóna króna fjárheimild vegna lagabreytingarinnar sem miðaði við að lögin tækju gildi á miðju næsta ári. Alþingi samþykkti hins vegar ekki þá frestun á gildistöku og þarf ráðuneytið í samstarfi við sýslumenn að bregðast hratt við til að hrinda lagabreytingunni í framkvæmd strax sem kallaði á umrædda 30 milljóna króna viðbótarfjárveitingu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum