Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. janúar 2013 Innviðaráðuneytið

Prentun sjóferðabóka undirbúin

Innanríkisráðherra hefur ákveðið, á grundvelli tillagna starfshóps á vegum innanríkisráðuneytisins, að fela Siglingastofnun Íslands að undirbúa prentun nýrra sjóferðabóka.

Sjóferðabók þjónar tvíþættu hlutverki, í fyrsta lagi er hún eins konar persónuskilríki sjómanns sem þarf að uppfylla hliðstæðar kröfur um öryggi og vegabréf og í öðru lagi er hún sönnun fyrir siglingatíma viðkomandi sjómanns sem er forsenda þess að viðhalda eða fá aukin réttindi.

Árið 1970 fullgilti Ísland samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 108, um persónuskírteini sjómanna. Markmið samþykktarinnar er að samræma gerð og upplýsingar um handhafa skírteinisins. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur gert athugasemdir við íslenskar sjóferðabækur og talið að þær uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru í samþykkt nr. 108. Hefur þetta valdið erfiðleikum fyrir íslenska sjómenn, einkum þeim sem sigla til Rússlands og annarra ríkja, einkum utan Evrópu því sjóferðabækur þeirra eru ekki teknar gildar sem persónuskírteini.

Innanríkisráðuneytið brást við óskum sjómanna um betri persónuskírteini og athugasemdum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar með því að stofna til óformlegs starfshóps sem myndi fara yfir málið og finna lausnir við því. Starfshópinn skipuðu Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Björn Freyr Björnsson, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Gylfi Kristinsson, sérfræðingur frá velferðarráðuneytinu, Þorvarður Kári Ólafsson, gæða- og öryggisstjóri Þjóðskrár Íslands, Helgi Jóhannesson, forstöðumaður stjórnsýslussviðs Siglingastofnunar Íslands og Sverrir Konráðsson, sérfræðingur við stjórnsýslusvið Siglingastofnunar Íslands. Hópurinn hafði samband og samráð við sérfræðinga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og við norræn siglingamálayfirvöld. Skilaði hópurinn tillögum sínum til innanríkisráðherra í byrjun árs 2013.

Leggur hópurinn til að gerðar verði nýjar sjóferðabækur, sem uppfylli að öllu leyti skilyrði samþykktar nr. 108, en einnig verði höfð hliðsjón af nýrri samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 185, um persónuskírteini sjómanna. Bókin skuli uppfylla ákveðnar tæknilegar kröfur og útgáfuferli hennar sé gæðavottað. Áætlar hópurinn að gefa þurfi út um 200 sjóferðabækur á ári og leitað verði tilboða í prentun allt að 2.000 bóka.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum