Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra í DV - Stór skref í náttúruvernd

Eftirfarandi grein Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í DV 18. janúar 2013.

 

Stór skref í náttúruvernd

Þegar arfleifð núverandi ríkisstjórnar verður gerð upp af fullri sanngirni verða framfaraskref í umhverfismálum líklega eitt af því sem stendur upp úr störfum hennar. Tvö mikilvægustu umhverfismál þessa kjörtímabils hafa verið til umfjöllunar síðustu vikurnar. Annars vegar rammaáætlun, sem Alþingi samþykkti í byrjun þessarar viku, og hins vegar frumvarp til heildarendurskoðunar náttúruverndarlaga, sem ég mælti fyrir á þingi síðastliðinn þriðjudag.

Rammaáætlun og ný náttúruverndarlög skipta hvort um sig miklu máli varðandi umgengni við landið. Til samans geta þau tryggt mikilvæga stefnumörkun um landnýtingu sem allt of oft hefur skort  sérstaklega þegar litið er til þess að viðfangsefnið er jafn mikilvægt og dýrmætt og náttúra Íslands.

Þróun á langri leið

Undirbúning að rammaáætlun má rekja aftur til ársins 1989, þegar Alþingi samþykkti ályktun Hjörleifs Guttormssonar að heildstæðri áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Frá þeim tíma hefur verkefnið þróast talsvert og breyst, en hvernig sem á málið er litið hefur tekið allt of langan tíma að ná nauðsynlegri sátt. Rammaáætlun hefði þurft að vera til staðar áratugum fyrr, svo ekki þyrfti að berjast fyrir hverju einasta landsvæði, heldur hefði verið hægt að ná jafnvægi á milli sjónarmiða náttúruverndar og orkuframleiðslu.

Ef slík áætlun hefði verið fyrir hendi eru líkur á því að meiri skynsemi og yfirvegun hefði einkennt mesta framkvæmdatímabil orkugeirans. Á síðustu tveimur áratugum hefur framleiðsla rafmagns með vatnsafli nálega þrefaldast, en raforkuframleiðsla með jarðhita nærri tuttugufaldast. Dæmin um hvar betur hefði mátt fara á þeirri leið eru allt of mörg, hvort sem litið er til of brattra áforma vegna jarðvarmavirkjana í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eða til ofsafenginna risaframkvæmda á hálendi Austurlands.

Ný vinnubrögð við endurskoðun náttúruverndarlaga

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kveður á um að hefja náttúruvernd til vegs, m.a. með því að endurskoða náttúruverndarlög, treysta verndarákvæði þeirra og tryggja almannarétt. Til að sú endurskoðun byggði á traustum grunni birti umhverfisráðuneytið hvítbók um stöðu náttúruverndar haustið 2011. Þar var gerð grein fyrir fræðilegum og stjórnsýslulegum grunni náttúruverndar, samanburður gerður við lagaumhverfið í nágrannalöndunum og gerðar tillögur að lagabreytingum. Nærri tveggja ára vinna lá að baki hvítbókinni, verklag sem er nýjung hér á landi en tíðkast víða, m.a. á hinum Norðurlöndunum. Þetta eru vinnubrögð sem við hljótum að vilja sjá víðar í framtíðinni.

Með hvítbók um náttúruvernd var hægt að ræða fyrirhugaðar lagabreytingar á grunni þekkingar og heildarsýnar, sem var raunin á síðasta umhverfisþingi og í opnu umsagnarferli. Máli skiptir að ákvarðanatökuferlið sé lýðræðislegt þegar grunnur er lagður að náttúruvernd til langs tíma. Ég bind vonir við að Alþingi afgreiði frumvarpið sem lög nú á vordögum, enda væri það mikil lyftistöng fyrir náttúruvernd.

Ákvarðanir á grunni upplýstrar umræðu

Rammaáætlun markar mikil tímamót og er grunnur að langþráðri sátt á milli náttúruverndar og orkunýtingar. Það þurfti einbeitt átak núverandi ríkisstjórnar til að ljúka málinu og koma því til endanlegrar afgreiðslu þingsins. Hún markar líka nokkur vatnaskil varðandi verklagið sem viðhaft var á lokametrum afgreiðslu hennar. Með því að senda drög að þingsályktunartillögunni í opið umsagnarferli áttu stjórnvöld í virku samtali við almenning. Þessi lýðræðislega aðkoma leiddi til þess að ákveðið var að afla frekari upplýsinga um sex svæði, sem voru því flokkuð í biðflokk í endanlegri tillögu Alþingis. Upplýst umræða almennings skilaði þannig betri tillögu þar sem varúðarsjónarmið voru höfð að leiðarljósi.

Það hefur lengi verið mikil þörf á því að styrkja lagalegan umbúnað náttúruverndar í landinu og marka skil í þeim miklum átökum sem hafa átt sér stað milli verndar og nýtingar um árabil. Tvö stór skref voru stigin í liðinni viku.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum