Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. janúar 2013 Forsætisráðuneytið

Aðgerðir gegn kynbundnum launamun samþykktar í ríkisstjórn

Stjórnarráðið
Stjórnarráðið

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra og Katrínar Júlíusdóttur fjármála- og efnahagsráðherra um að ráðast nú þegar í jafnlaunaátak með aðgerðum sem beinast að því að rétta hlut starfsstétta þar sem konur eru í miklum meirihluta.  

Eftir hægfara þróun í átt að auknu launajafnrétti kynja hér á landi hefur á síðustu misserum orðið afturkippur í jafnlaunaþróun meðal opinberra starfsmanna. Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að vinna gegn kynbundnum launamun og í desember 2011 skipaði velferðarráðherra framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynja sem falið var að samhæfa aðgerðir til að draga úr launamisrétti og leggja fram tímasetta aðgerðaáætlun. Sú áætlun var kynnt síðastliðið haust og felur í sér ýmis verkefni sem öllum er ætlað að stuðla að launajafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Samhliða undirrituðu stjórnvöld og samtök aðila vinnumarkaðarins viljayfirlýsingu um samstarf til að eyða kynbundnum launamun. Í samræmi við viljayfirlýsinguna var nýlega skipaður aðgerðahópur til tveggja ára sem meðal annars á að samræma rannsóknir á kynbundnum launamun, gera áætlun um kynningu jafnlaunastaðals og annast upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja.

Fyrstu aðgerðir árið 2013

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur að gerð greiningar á jafnlaunaþróun meðal ríkisstarfsmanna. Kynbundið starfsval er áberandi í ýmsum greinum og var í fyrsta áfanga skoðaður kynbundinn launamunur þar sem annað kynið er í meirihluta. Niðurstöðurnar sýna að launamunur karla- og kvennahópa er hvað mestur hjá stofnunum innan heilbrigðiskerfisins og þar eru jafnframt fjölmennustu starfshóparnir sem um ræðir.

Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar frá í morgun munu aðgerðir sem nú verður ráðist í til að draga úr kynbundnum launamun beinast að stofnunum innan heilbrigðiskerfisins. Einkum verður horft til starfshópa þar sem 2/3 hluti starfsmanna eða meira eru konur. Ef ákveðið verður að ráðast í aðgerðir til að leiðrétta laun þótt kjarasamningar séu enn í gildi þarf að útfæra þær innan hverrar stofnunar fyrir sig, annað hvort með tímabundnum aðgerðum fram að endurnýjun kjarasamninga eða á grundvelli stofnanasamnings líkt og gert var við leiðréttingu á kynbundnum launamun innan Stjórnarráðsins í október síðastliðnum.

Velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hefur verið falið að útfæra nánar tillögur að framangreindum aðgerðum til að draga úr kynbundnum launamun og jafnframt að gera tillögu um fjármögnun rúmist þær ekki innan fjárhagsramma viðkomandi stofnana.

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum