Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. janúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Áhersla lögð á vöktunaráætlun í Kolgrafafirði

Úr heimsókn í Kolgrafafjörð í dag.
Úr heimsókn í Kolgrafafjörð í dag.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fór í vettvangsferð í Kolgrafafjörð í dag og fundaði í framhaldinu með heimamönnum og vísindamönnum vegna síldardauðans sem þar varð í desember síðastliðnum. Ráðherra telur mikilvægt að gerð verði áætlun um vöktun ástandsins í firðinum þar sem fylgst verður  með niðurbroti síldarinnar og áhrifum þess á lífríki og mannlíf á svæðinu.

Ráðherra hóf heimsókn sína á því að skoða aðstæður við bæinn Eiði í Kolgrafafirði, þar sem mikið magn síldar gekk á land í desember síðastliðnum. Auk ráðherra voru með í för forstjóri Umhverfisstofnunar og fulltrúar Hafrannsóknarstofnunar, auk starfsfólks Náttúrustofu Vesturlands, sveitarstjórnarfólks af svæðinu og heimamanna.

Að lokinni skoðunarferð undir leiðsögn ábúenda á Eiði, fundaði hópurinn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði þar sem vísindamenn fóru yfir hugsanlegar ástæður síldardauðans, stöðu málsins og mögulega þróun í framhaldinu. Voru fundarmenn á einu máli um nauðsyn þess að fylgjast grannt með þróun lífríkis og ástands svæðisins á næstu mánuðum. Ljóst er að síldardauðinn hefur veruleg áhrif á lífríki fjarðarins um leið og þessi einstæði atburður felur í sér mikið tækifæri til að afla mikilvægrar þekkingar á náttúrunni og viðbrögðum hennar við aðstæður sem þessar.

Ráðherra lagði á það áherslu að gerð verði vöktunaráætlun fyrir svæðið næstu mánuði, með aðkomu allra sem málinu tengjast. Slík áætlun verði að gera ráð fyrir að gripið verði til aðgerða ef ástandið versnar en nokkur óvissa ríkir um hvernig mál þróast á næstu vikum og mánuðum, enda um að ræða nær fordæmalausan viðburð.

Frá fundi í Grundarfirði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum