Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. febrúar 2013 Forsætisráðuneytið

Ávarp ráðherra við athöfn í Hörpu til heiðurs Vilborgu Örnu Gissurardóttur suðurpólsfara

Kæra Vilborg og þið sem hér eruð viðstödd í dag með þessari heiðurskonu.

Þjóðin fylgdist með langri ferð þinni af miklum áhuga, ekki síst á lokasprettinum. Ferð þín var merkileg ekki síst vegna þess að þú ert í senn fyrsti Íslendingurinn sem gengur einn síns liðs á suðurpólinn og fyrsta íslenska konan sem nær þessum áfanga. Þar að auki lagðir þú upp í þennan leiðangur með það að markmiði að styrkja aðra og styðja.

Í mínum huga má setja ferð þína í samhengi við svo margt. Þú hefur sýnt hvers megnug hver manneskja er þegar hún undirbýr sig vel og setur sér krefjandi markmið en mér er sagt að þú hafir undirbúið þennan leiðangur í um áratug. Margir mættu taka það sér til fyrirmyndar að gefa sér svo langan tíma til að vinna að markmiðum sínum og ég vona að þú getir ekki síst orðið börnum og unglingum fyrirmynd að þessu leyti.

Þú hefur á sama tíma sýnt hve samstaða og samhugur getur skilað miklu. Þú hefur unnið þitt afrek ein, en þó studd af svo mörgum sem hafa hvatt þig áfram. Þú lagðir upp í ferðina til þess að styðja félagssamtök sem styðja starfsemi sem flestir njóta og er gríðarlega mikilvæg. Þú valdir að takast á við sjálfa þig og erfiðar aðstæður um leið og styðja aðra um leið. Þú hefur sýnt konum hvers þær eru megnugar og að þeim eru svo sannarlega allir vegir færir og ert því ekki síst mikilvæg fyrirmynd að því leyti. Þú hefur sýnt jákvæðni og þrautseigju, sem ég leyfi mér að telja að haf jafnframt verið styrkleikar íslensku þjóðarinnar í gegnum tíðina.

Kæra Vilborg, í tilefni af afreki þínu hefur ríkisstjórnin samþykkt að veita 3 milljóna króna styrk til Lífs styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans. Eins og væntanlega mun koma ítarlegar fram hjá öðrum hér í dag hefur Líf styrktarfélag þann tilgang að styrkja kvennadeild Landspítalans, bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Þá vinnur félagið að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.

Sterk hefð er fyrir því í íslensku samfélagi að styrktarfélög, hliðstæð Lífi, styrki margvíslega starfsemi, ekki síst á sviði velferðarmála. Með afreki sínu hefur Vilborg Arna í senn vakið athygli á Lífi styrktarfélagi kvennadeildar Landspítalans og mikilvægri starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss og styrktarfélaga á sviði velferðarmála.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá hve margir hafa brugðist við kalli Vilborgar með fjárframlögum. Ríkisstjórnin hefur fylgst grannt með þessu verkefni og hreyfst að sjálfsögðu með og samþykkti á fundi sínum á föstudaginn að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og veita þriggja milljóna króna styrk til Lífs styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans.

Mig langar að biðja Vilborgu og fulltrúa Lífs að koma hingað til mín og veita viðtöku skjali þessu til staðfestingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum