Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. febrúar 2013 Forsætisráðuneytið

Þriggja milljóna króna styrkur til Lífs styrktarfélags - Vilborg Arna Gissurardóttir suðurskautsfari heiðruð

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, afhenti í dag Lífi, styrktarfélagi Kvennadeildar Landspítalans, þriggja milljóna króna styrk fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Styrkurinn var afhentur við sérstaka athöfn í Hörpu í dag, sunnudaginn 3. febrúar, en hann er veittur í tilefni af afreki Vilborgar Örnu Gissurardóttur, sem náði því markmiði að ganga á suðurskautið til styrktar Lífi styrktarfélagi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ávarpaði Vilborgu við þetta tækifæri og sagði þjóðina hafa fylgst með langri ferð hennar, ekki síst lokasprettinum. „Ferð þín var merkileg ekki síst vegna þess að þú ert í senn fyrsti Íslendingurinn sem gengur einn síns liðs á suðurpólinn og  fyrsta íslenska konan sem nær þessum áfanga. Þar að auki lagðir þú upp í þennan leiðangur með það að markmiði að styrkja aðra og styðja.“

Jóhanna sagði jafnframt að margir mættu taka sér langan og markvissan undirbúning Vilborgar sér til fyrirmyndar. „Þú hefur sýnt konum hvers þær eru megnugar og að þeim eru svo sannarlega allir vegir færir og ert þú því ekki síst mikilvæg fyrirmynd að því leyti,“ sagði Jóhanna ennfremur.

Líf styrktarfélag hefur þann tilgang að styrkja Kvennadeild Landspítalans, bæði aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur einnig að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna.

Styrkveitingin var samþykkt á ríkisstjórnarfundi 1. febrúar síðastliðinn, en hann er veittur af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.

Ræðu forsætisráðherra í Hörpu 3. febrúar er að finna í heild sinni hér á vef forsætisráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum