Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. febrúar 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vegna auglýsingar um náttúruverndarfrumvarp


Ferðaklúbburinn 4x4 birti auglýsingu í Fréttablaðinu föstudaginn 8. febrúar 2013, þar sem skorað var á þingmenn að hafna frumvarpi til náttúruverndarlaga, sem er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Í auglýsingunni kemur fram gagnrýni í sex liðum, sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið telur rétt að bregðast við.
 
Fullyrðing Ferðaklúbbsins 4x4: Frumvarp til laga um náttúruvernd felur í sér breytingar sem munu stórskaða ferðamennsku á Íslandi og gera almenningi illkleift að ferðast um land sitt.

Svar ráðuneytisins: Í frumvarpinu eru engin ákvæði sem miða að því að skerða möguleika á ferðamennsku á Íslandi. Þvert á móti þá er staða almannaréttarins styrkt, m.a. með því að kveða skýrar á um þann rétt í markmiðsákvæði laganna. Þá er almenningi heimilt að krefjast úrlausnar um hvort hindranir sem lagðar eru við för almennings um landið séu lögmætar (sbr. 29. gr.). Auk þessa eru heimildir landeigenda eða rétthafa lands til að takmarka för almennings um óræktað land í byggð takmarkaðar frá því sem nú er og eru bundnar við sérstök tilvik þar sem slíkt er nauðsynlegt vegna nýtingar eða verndunar lands (19. gr.).

Fullyrðing Ferðaklúbbsins 4x4: Í frumvarpinu er ekkert tillit tekið til fatlaðra, aldraðra, fólks með ung börn eða annarra sem geta ekki farið um hálendið fótgangandi. Sérstakt horn er haft í síðu fólks sem ferðast um á eigin bílum.

Svar ráðuneytisins: Óljóst er hvað átt er við með að ekki sé tillit til þeirra sem ferðast um á ökutækjum. Sérstaklega skal í þessu sambandi bent á að skv. 32. gr. frumvarpsins er Umhverfisstofnun veitt heimild til að veita undanþágur frá banni við akstri utan vega vegna sérstakra aðstæðna, sem opnar á þann möguleika að unnt verði að heimila fötluðum akstur utan vega við tilteknar aðstæður. Í gildandi náttúruverndarlögum er ekki gert ráð fyrir því að akstur vélknúinna ökutækja falli undir almannarétt og hafa lögin því ekki haft að geyma ákvæði er mæla fyrir um rétt tengdan slíkum fararmáta. Í 55. gr. vegalaga, nr. 80/2007 segir hins vegar: „Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegflokks samkvæmt lögum þessum og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi.“

Fullyrðing Ferðaklúbbsins 4x4: Ekkert raunverulegt samráð var haft við útivistarfólk eins og ferðaklúbbinn 4x4 við gerð frumvarpsins. Þar með voru sjónarmið þúsunda fjallamanna og náttúruunnenda sniðgengin.

Svar ráðuneytisins: Undirbúningur að framlagningu frumvarpsins hófst haustið 2009 með  gerð yfirgripsmikillar Hvítbókar sem var megingrundvöllur umræðu á umhverfisþingi 2011. Þar áttu fjölmargir hagsmunaaðilar aðkomu og komu sjónarmiðum sínum á framfæri. Að auki fylgdi Hvítbókinni víðtækt samráð, fundahöld um land allt og umsagnarferli á ólíkum stigum, áður en að eiginlegri frumvarpssmíð kom. Þá var óskað eftir umsögnum fjölda aðila við drög að frumvarpinu á árinu 2012, þ.á m. Ferðaklúbbnum 4x4, auk þess sem almenningi og öðrum gafst færi á að gera athugasemdir. Frestur til að veita umsagnir eða leggja fram athugasemdir var rúmlega þrjár vikur. Að baki er því mikil og vönduð vinna og meira samráð en tíðkast við gerð frumvarpa.

Fullyrðing Ferðaklúbbsins 4x4: Samkvæmt frumvarpinu er ráðherra falið vald til geðþóttaákvarðana, s.s. að banna umferð ákveðinna hópa sem hann telur að geti valdið öðrum óþægindum. Við teljum slíka stjórnarhætti tímaskekkju.

Svar ráðuneytisins: Óljóst er hvað hér er átti við að því undanskildu að skv. 31. gr. frumvarpsins getur ráðherra í reglugerð, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, takmarkað eða bannað akstur á jöklum og frosinni og snævi þakinni jörð þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða óþægindum fyrir aðra sem þar eru á ferð. Þessi heimild er óbreytt frá gildandi lögum (17. gr.) og er ekki vitað til þess að hún hafi valdið vandkvæðum. Slíkri heimild er ekki beitt nema að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, sem gefur sitt sérfræðiálit á því hvort rök séu fyrir beitingu ákvæðisins. Lögmæt sjónarmið þurfa að liggja að baki ákvörðun ráðherra um slíkar takmarkanir.

Fullyrðing Ferðaklúbbsins 4x4: Almennt er frumvarpið hroðvirknislega unnið. Ljóst er að þúsundir náttúruunnenda eru afar óánægðir með það og telja að með samþykkt þess væri stórt óheillaskref stigið í þá átt að loka hálendi Íslands fyrir almenningi.

Svar ráðuneytisins: Eins og áður segir þá liggur að baki frumvarpi til laga um náttúruvernd mikil og vönduð vinna. Fullyrðingar um að loka eigi hálendi Íslands fyrir almenningi eru órökstuddar og er einungis hægt að benda á í því sambandi að markmið frumvarpsins er að engu leyti að loka hálendinu fyrir almenningi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum