Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. febrúar 2013 Utanríkisráðuneytið

Þrjár gáttir til framtíðar

Össur Skarphéðinsson
ossur_skarphedinsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti í dag framsöguræðu við upphaf árlegrar umræðu á Alþingi um utanríkismál. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á mikilvægi þess fyrir Ísland að opna sem flestar dyr til að skapa ný tengsl og tækifæri um leið og gagnvegir til gamalla vina væru slípaðir. Að því hefði markvisst verið unnið í utanríkismálunum allt kjörtímabilið.

Ráðherra lagði áherslu á þrjár gáttir inn í framtíðina: Að opna leið inn í Evrópusambandið, kjósi íslenska þjóðin svo. Að skapa tækifæri á norðurslóðum þar með talið í olíu- og gasvinnslu, í fiskveiðum og norðursiglingum um leið og ítrustu reglur um umhverfisvernd væru virtar. Og að opna dyr sem snúa að rísandi viðskiptaveldum í Asíu með áherslu á fríverslun og norðursiglingar. Þessar gáttir útiloka ekki hver aðra, sagði ráðherra, heldur á Ísland að halda þeim öllum opnum og nýta tækifærin sem þeim tengjast.

Utanríkisráðherra ræddi Evrópumálin og upptöku evru sem hann sagði þá leið sem í nánustu framtíð gæti bætt lífskjör Íslendinga mest í gegnum stöðugleika, auknar fjárfestingar og aukinn hagvöxt. Ljóst sé að aðeins tveir kostir séu í gjaldmiðilsmálum, króna eða evra, og það sé þjóðarinnar að velja. Hættan sé sú að með fyrrnefnda kostinum greiði blómi kynslóða framtíðarinnar atkvæði um aðild með fótunum og flytji frá Íslandi – til Evrópusambandsríkja.

Ráðherra sagði einungis lokaáfangann eftir í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið – fyrst og fremst að opna og semja um landbúnað og sjávarútveg. Með hörðum samningum geti Íslendingar haldið sínu en skapað um leið ný tækifæri fyrir sjávarútveg á Íslandi. Í því sambandi benti hann á að aflahlutdeild haldist við inngöngu í krafti sögulegrar veiðireynslu. Ísland þurfi hins vegar að tryggja sig fyrir hugsanlegum breytingum  á göngumynstri flökkustofna og þar setji aðild íslenska girðingu utan um fiskistofna. Aðild muni skapa skilyrði fyrir því að einn best rekni sjávarútvegur í heimi geti haslað sér enn sterkari völl erlendis, með afnámi tolla og aðgangi að fjármagni á lægri vöxtum.

Utanríkisráðherra undirstrikaði að starf utanríkisþjónustunnar markist af virðingu og baráttu fyrir mannréttindum. Ísland hafi skipað sér í fremstu röð þeirra sem berjist gegn ofsóknum, ofbeldi og mismunun á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Átta  af hverjum tíu verkefnum Íslendinga í þróunarsamvinnu tengjast liðsinni við stúlkur, konur og mæður.  Stuðningur Íslands við Palestínu byggist ekki síst á virðingu fyrir mannréttindum og eindregnum stuðningi við það viðhorf, að engin þjóð megi kúga aðra.

Framsöguræða utanríkisráðherra er hér.
Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum