Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. febrúar 2013 Matvælaráðuneytið

Hreinsunarstarfi í Kolgrafafirði miðar vel

Unnið að hreinsun í Kolgrafafirði
Unnið að hreinsun í Kolgrafafirði

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að starfshópur ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fjármálaráðuneytis vinni tillögur til ríkisstjórnar um útgjöld vegna þeirra verkefna, sem ráðast þarf í vegna síldardauðans í Kolgrafafirði. Vel miðar í hreinsunarstarfi í Kolgrafafirði – vinna við að grafa dauða síld í fjörunni er langt komin og flutningur á grút úr fjörunni er hafinn. 

Þann 5. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin sex milljóna króna fjárveitingu vegna eftirlitsáætlunar í Kolgrafafirði eftir að stórfelldur síldardauða varð þar í tvígang á undanförnum vikum. Sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar telja að 30 þúsund tonn af síld hafi drepist á svæðinu í desember 2012 og nú í febrúarbyrjun hafi um 22 þúsund tonn drepist til viðbótar.

Mikið fuglalíf er á svæðinu og er því mikil hætta á að grútur setjist í fjaðrir fugla með neikvæðum afleiðingum. Eftirlitsferð sérfræðinga Náttúrustofu Vesturlands og Náttúrufræðistofnunar Íslands í gær leiddi í ljós að töluverður fjöldi arna er á svæðinu en svo virðist sem aðeins einn til tveir þeirra hafi komist í snertingu við grútinn. Grúturinn virðist þó ekki hamla örnunum því allir ernir sem sást til eru fleygir.  

Mjög mikilvægt er að afstýra með öllum ráðum því umhverfisslysi sem af síldargrútnum gæti stafað, og hefur því verið ráðist í hreinsunaraðgerðir í fjörunni við bæinn Eiði í Kolgrafafirði. Aðgerðirnar felast annars vegar í því að grafa dauða síld niður í sandinn í fjörunni og hins vegar að moka grútinn upp og flytja hann til urðunar á næsta urðunarstað sem er í Fíflholtum á Mýrum. Umhverfisstofnun stýrir verkefninu í samráði og samvinnu við heimamenn, sem annast verkið og vindur því vel fram. Ljóst er að aðgerðirnar hafa þegar haft tvennskonar áhrif, annars vegar að hreinsa fjörurnar af grút og síld með minni hættu fyrir lífríkið. Hins vegar minnka aðgerðirnar lyktarmengun á svæðinu.

Líklegt er að grípa þurfi til frekari aðgerða, enda er umfangið mikið. Ljóst er því að síldadauðinn í Kolgrafafirði hefur óhjákvæmileg útgjöld í för með sér umfram þær fjárveitingar sem ríkisstjórn hefur þegar samþykkt til vöktunar og eftirlits. Mun ofangreindur starfshópur annast tillögugerð vegna útgjalda sem ráðast þarf í vegna hamfaranna, líkt og gert var varðandi útgjöld í tengslum við óveður sem gekk yfir Norðurland sl. haust.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum