Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. mars 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillaga að landsskipulagsstefnu lögð fram á Alþingi

Sunnan Reykjavíkur.
Sunnan Reykjavíkur.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2013 – 2024. Þetta er í fyrsta sinn sem tillaga um landsskipulagsstefnu er lögð fram en kveðið er á um slíka stefnu í skipulagslögum sem samþykkt voru á Alþingi haustið 2010. Þingsályktunartillagan var unnin í kjölfar tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu  til umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið landsskipulagsstefnu er að setja fram leiðarljós um nýtingu lands og landgæða sem tryggir heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana um leið og hún stuðlar að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð.

Stefnunni er einnig ætlað að samþætta áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun.

Þingsályktunartillagan um landsskipulagsstefnu felur í sér þrjár meginstefnur, þ.e. stefnu um skipulagsmál á miðhálendi Íslands, stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar og stefnu um skipulag á haf- og strandsvæðum. Stefna um skipulagsmál á miðhálendinu leysir af hólmi svæðisskipulag miðhálendis Íslands 2015 en viðheldur þó meginstefnu svæðisskipulagsins, m.a. stefnu um samfellda verndarheild á miðhálendinu og skilgreiningu sérstakra mannvirkjabelta. Jafnframt er m.a. tekið mið af stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og samgönguáætlun 2011-2022. Í stefnu um búsetumynstur og dreifingu byggðar er lagt til grundvallar að skipulagsgerð miði að aukinni sjálfbærni byggðar og að sérstök áhersla verði lögð á náttúruvernd og heildarsýn á náttúrufar í hverju sveitarfélagi og vistkerfisnálgun. Í stefnu um skipulag haf- og strandsvæða er lögð áhersla á að að hafsvæðin við Ísland búi yfir mikilvægum auðlindum sem þurfi að viðhalda, m.a. á grundvelli sjálfbærni hafsins, og að stjórnsýsla skipulagsmála á haf- og strandsvæðum verði skýr og samræmd.

Sú þingsályktunartillaga að landsskipulagsstefnu sem liggur fyrir á Alþingi var unnin í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir, fyrirtæki og hagsmunasamtök en stofnaður var sérstakur samráðsvettvangur vegna mótunar stefnunnar sem í voru fulltrúar þessara aðila. Að auki voru drög að tillögu Skipulagsstofnunar að landsskipulagsstefnu kynnt opinberlega og óskað eftir athugasemdum áður en tillagan var auglýst og send út til umsagnar fjölmargra aðila.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum