Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. mars 2013 Forsætisráðuneytið

Fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi

Stöðvum ofbeldi gegn konum
Stöðvum ofbeldi gegn konum

Árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women) stendur nú yfir í New York og fjallar að þessu sinni um ofbeldi gegn konum og stúlkum, baráttuna gegn því og leiðir til forvarna.

Fulltrúar Íslands taka þátt í almennum umræðum og hliðarviðburðum sem tengjast meginefni fundarins. Í ávarpi sem Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunnum, flutti fyrir hönd stjórnvalda var meðal annars fjallað um aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að sporna við ofbeldi gegn konum, rætt um hlutverk og ábyrgð karla og drengja í þessu samhengi og ríki jafnframt hvött til þess að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum sem vernda og efla mannréttindi kvenna. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu tók sæti velferðarráðherra í pallborði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og fjallaði sérstaklega um mikilvægi þess að karlar taki þátt í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum.

Ísland átti jafnframt fulltrúa í pallborði sérfræðinga sem fjallaði um kynjajafnrétti, loftslagsmál og líffræðilegan fjölbreytileika. Fulltrúar frjálsra félagsamtaka sækja jafnan fundinn og að þessu sinni tóku fulltrúar Landsnefndar UN Women á Íslandi og Stígamóta þátt í fundinum. Stýrðu Stígamót hliðarviðburði systursamtaka sinna á Norðurlöndum þar sem fjallað var um starfsemi frjálsra félagasamtaka í baráttunni gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Fulltrúar velferðarráðuneytis og utanríkisráðuneytis taka nú þátt í samningaviðræðum um lokaskjal fundarins þar sem hart er tekist á um mikilvæg mál. Má þar nefna andstöðu vissra ríkja við mál sem lúta að kyn- og frjósemisheilbrigði, kyngervi, birtingarmyndum ofbeldis og áreitni gegn konum og stúlkum, sérstaklega heimilisofbeldis og ofbeldi í nánum samböndum. Þessi málefni hafa verið í brennidepli í málflutningi í málflutningi Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum