Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. mars 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veiðimálastofnunar 2013

Svandís Svavarsdóttir flutti eftirfarandi ávarp á ársfundi Veiðimálastofnunar sem haldinn var 20. mars 2013.

 

Góðan dag,
Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér í fyrsta sinn á ársfundi eftir að Veiðimálastofnun flutti búferlum til nýstofnaðs umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Veiðimálastofnun byggir á gömlum merg. Embætti veiðimálastjóra var stofnað árið 1946 og hefur starfseminni smám saman vaxið fiskur um hrygg og stendur nú á traustum grunni.

Vistaskiptum fylgja alltaf einhverjar spurningar, en ég er sannfærð um að Veiðimálastofnun eigi vel heima í ráðuneyti sem fer með málefni umhverfisins og náttúruauðlindanna. Þetta kjörtímabil hefur verið tímabil mikilla breytinga á ráðuneytum; þau eru nú færri og öflugri. Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er mikill fengur að því að fá Veiðimálastofnun til liðs við sig, eins og Íslenskar orkurannsóknir og landshlutaverkefni í skógrækt, sem einnig komu til nýja ráðuneytisins við stofnun þess síðastliðið haust. Ég vona auðvitað að ykkur líki vistin vel og fullvissa ykkur um að í ráðuneytinu erum við vel meðvituð um það góða starf sem hér er unnið og þann mikla auð sem er að finna í lífríki ferskvatns á Íslandi, hvort sem það er mælt á kvarða efnahags eða náttúru og umhverfisgæða.

Ísland er óvenju ríkt af ferskvatni og raunar eru ekki mörg lönd á jarðarkringlunni þar sem meira er að finna af ferskvatni á hvern íbúa. Víða um heim er aðgangur að hreinu vatni takmarkaður og fer þverrandi. Allar spár gera ráð fyrir að vatnsskortur verði vaxandi vandi með fjölgun íbúa, aukinni neyslu og breytingum á loftslagi og úrkomumynstri. Þetta er okkur fjarlægur veruleiki og kannski höfum við um of gengið að þessum auði okkar vísum. Nú er unnið að því að koma á fyrstu heildstæðu vatnaáætlun fyrir Ísland, en því verki á að ljúka árið 2015. Þar gegnir Veiðimálastofnun veigamiklu hlutverki við þá þætti sem lúta að lífríki ferskvatnsins. Vatnaáætlun á að verða okkur gagnlegt tæki til að tryggja að við göngum vel um þessa dýrmætu auðlind og gleymum því ekki að vatnið er vistkerfi, en ekki bara uppspretta orku og eitthvað sem kemur úr krananum.

Margt af markverðasta í lífríki Íslands er einmitt að finna í ferskvatninu. Hér hafa fundist einlendar tegundir grunnvatnsmarflóa, sem hafa lifað af ísöld og ef til vill fleiri en eina. Bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni eru eitt þekktasta dæmið í líffræðinni um myndun nýrra tegunda með náttúruúrvali á tiltölulega skömmum tíma. Lífríki Mývatns er einstaklega auðugt og finnast fá dæmi um slíkt á líkum breiddargráðum. Fjölbreytilegt fuglalíf Mývatns er það höfuðdjásn sem ferðamenn dást mest að, en undirstöðu þess er að finna í vatninu sjálfu og mikilli frumframleiðni þar. Það er með náttúruna eins og samfélagið, að það er stundum vanrækt að skoða undir yfirborðið, en það er þó bráðnauðsynlegt að gera það ef vel á að vera.

Þessi ársfundur Veiðimálastofnunar er helgaður laxinum. Laxfiskarnir eru sá þáttur vatnalífríkisins sem við þekkjum best og sem stendur hlutverki Veiðimálastofnunar næst. Þar er um að ræða mikinn náttúruauð, sem hefur mikla efnahagslega þýðingu, sem er metinn í milljörðum króna. Slíkar tölur segja þó ekki alla sögu, því nýting laxveiðiáa skiptir landeigendur og heimamenn stundum sköpum hvað varðar afkomu. Laxinn er víða ein helsta stoðin undir samfélögum í dreifðum byggðum. Sjálfbær nýting slíkrar auðlindar er grundvallaratriði. Laxveiðimenn leita flestir að fleiru en fiskinum á önglinum, þeir sækjast líka eftir þeirri náttúruupplifun sem felst í því að heimsækja ríki hans við straumvötn og gróna bakka. Náttúruvernd og skynsamleg nýting laxins fer vel saman. Sá ágæti náttúruverndarmaður og jarðfræðingur Sigurður Þórarinsson sagði eitt sinn að það yrði að meta unaðsstundir jafnt sem kílówattstundir við mat á framkvæmdum. Varðandi laxinn, þá vill svo til að unaðsstundirnar telja bæði í kassann og reynslubankann.


Ágætu gestir,

Það hefur ekki verið nein lognmolla í samfélaginu á síðustu árum og það er enn mikil undiralda þótt okkur hafi tekist að reisa okkur að miklu leyti við eftir fjármálahrunið sem hér varð. Einn helsti lærdómurinn sem draga má af þeirri sögu er sá að sjálfbær þróun er ekki einhver tískufrasi, eða ein leið af mörgum sem við getum farið í þjóðfélagsþróun. Sjálfbær þróun er eina leiðin sem er í raun fær. Hinar leiða að bjargbrúninni. Við megum ekki gefa út ávísanir á kostnað komandi kynslóða til að halda veislu í dag, hvort sem er í formi innistæðulausra bankabréfa eða ofnýtingar náttúrugæða. Náttúran og auðlindir hennar eru fjöregg Íslendinga og við höfum ekki rétt til að rasa um ráð fram við nýtingu þeirra. Við verðum að spyrja okkur hvers virði náttúran er, hvort sem um er að ræða lífríki Lagarfljóts eða Mývatns eða Þjórsár og hvaða áhættu við séum tilbúin að taka í því tilfelli. Við verðum að skyggnast undir yfirborðið, í bókstaflegum jafnt sem óeiginlegum skilningi og sýna náttúrunni og niðjum okkar tilhlýðilega virðingu.

Veiðimálastofnun gegnir miklu hlutverki við að hjálpa okkur að umgangast lífríki ferskvatns á sjálfbæran hátt. Traust vísindi og góð ráðgjöf eru ein helsta undirstaða sjálfbærni. Brátt fara fram kosningar, sem eru eðli málsins samkvæmt óvissutímar fyrir ráðherra. Ég tel þó víst að hvernig sem pólitískir vindar muni blása muni vel fara um Veiðimálastofnun í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu með öðrum stofnunum á sviði umhverfisverndar og náttúruvísinda. Ég óska ykkur alls hins besta hér á þessum fundi og um langa framtíð.
Takk fyrir,

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum