Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. mars 2013 Forsætisráðuneytið

Kaflaskil í samskiptum ríkis og sveitarfélaga

Um miðja síðustu öld voru sveitarfélög á Íslandi nærri 230 að tölu. Þau eru nú 74 og fjöldi íbúa er að meðaltali 4.300 íbúar og aðeins 2.700 ef Reykjavík er undanskilin. Þetta er ekki mikill fjöldi og áreiðanlega má færa fyrir því rök að einingarnar mættu og ættu að vera stærri. Meðalfjöldi í  sveitarfélögum í Skotlandi er 162.000 íbúar í 32 sveitarfélögum. Meðalfjöldi í hverju sveitarfélagi í Danmörku er 53.000 íbúar.

Á kjörtímabilinu, sem senn er á enda, hefur ríkisstjórn jafnaðar- og félagshyggjufólks  beitt sér fyrir margvíslegum umbótum í stjórnsýslunni. Tilgangurinn er auðvitað sá að auka skilvirkni, bæta nýtingu fjármuna og auka jafnræði og gagnsæi. Til að mynda hefur ráðuneytum verið fækkað úr tólf í átta og ráðherrum hefur fækkað að sama skapi. Skrifstofur ráðuneytanna stækka, þær verða faglegri og skilvirkari og veita borgurunum vonandi betri þjónustu.

Aukin áhrif landshluta

Í þessu samhengi hefur ríkisstjórnin gengist fyrir merkilegri tilraun í samvinnu við sveitarfélögin og forsvarsmenn landshlutasamtaka sem ber heitið Sóknaráætlanir landshluta. Vinnan við þær hófst í byrjun ársins 2011 og hefur staðið samfellt síðan. Nú eru kaflaskil því í dag eru undirritaðir samningar milli ríkisins og átta landshluta um sóknaráætlanirnar. Að baki þeim er mikil vinna af hálfu sveitarstjórnarmanna og forsvarsmanna landshlutasamtaka sem og embættismanna innan stjórnarráðsins. Ég vil þakka þeim fyrir gott starf enda má segja að kerfisbreytingar og umbætur af þessum toga eigi líf sitt undir góðri samvinnu og trú á verkefnið.

Eins og málum hefur verið háttað eru samningar um opinber fjárframlög til einstakra byggðaverkefna í höndum margra og hafa ekki hingað til fylgt neinu samstilltu skipulagi þótt Byggðastofnun gegni þar lykilhlutverki. Um 5 milljarðar króna renna nú til slíkra verkefna í öllum fjórðungum og samningarnir eru vart færri en 200 talsins.

Hugmyndin að baki sóknaráætlunum landshlutanna er í rauninni einföld. Hún byggist á því að innan átta landshluta fái sveitarstjórnir og ýmis landshlutasamtök, sem fást við framfara- og hagsmunamál, þræðina í sínar hendur. Þau forgangsraði verkefnum á grundvelli sóknaráætlana og ákveði hvernig tilteknum fjárframlögum til landshlutans skuli skipt. Á hinum endanum er stjórnarráðið með sín átta ráðuneyti. Það skipar einskonar stýrinet með fulltrúum þvert á ráðuneytin sem annast samhæfingu áætlana og samninga um þær við landshlutana. Allt er þetta til einföldunar og til þess fallið að bæta nýtingu fjármuna. Auk þess má ætla að þetta verklag geti unnið gegn kjördæmapoti  og geðþóttalegri fyrirgreiðslu. Frá mínum bæjardyrum væri það framfaraspor og merki um heilbrigðari stjórnsýslu en áður.

Aukin samvinna

Segja má að árið 2013 sé reynslutími þar sem sóknaráætlanir landshlutanna slíta barnsskóm sínum. Alls renna  um 620 milljónir króna til þessa verkefnis á árinu. Það er aðeins brot af því fé sem gæti fallið undir þessa samninga ef fyrirkomulagið reynist vel. Engin ástæða er til að ætla annað en að þetta geti gengið. Ætla má að allt að 800 manns hafi komið nálægt undirbúningnum á mörgum fundum, bæði í landshlutunum og innan Stjórnarráðsins.

Ég hef haft mikla ánægju af því að hitta sveitarstjórnarmenn og aðra forystumenn landshlutasamtaka á heimavelli þeirra á undanförnum árum. Ríkisstjórnin tók upp þá nýbreytni að halda ríkisstjórnarfundi á landsbyggðinni. Þeir hafa nú verið haldnir í öllum landshlutum, á Suðurnesjum, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og nú síðast á Selfossi. Alls staðar gafst ráðherrunum tækifæri til skoðanaskipta við forystumenn í hverjum landshluta. Ég á þá ósk að ríkisstjórnir framtíðarinnar geri þetta að venju enda eru ávinningarnir af beinum samskiptum og samvinnu við fulltrúa landshlutanna áþreifanlegir.

Með undirritun sóknaráætlana landshlutanna hefur mikil undirbúningsvinna tekið á sig mynd og verið innsigluð. Samningarnir eru til þess fallnir að skerpa og skýra samskipti ríkis og sveitarfélaga og leggja grunn að nýrri hugsun í byggðamálum. Ég óska okkur öllum til hamingju með árangurinn.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra 
(Greinin birtist í DV 22. mars 2013)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum