Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Nýr kafli í fangelsissögu landsins með fyrstu skóflustungu að nýju fangelsi

Nýr kafli hefst í fangelsissögu landsins með því skrefi sem við stígum í dag, sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í ávarpi þegar hann tók fyrstu skóflustunguna að byggingu fangelsis á Hólmsheiði í dag. Viðstaddur var fjöldi gesta og auk ráðherra flutti ávarp Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Athöfninni stýrði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um byggingu nýs fangelsis.

Innanríkisráðherra tók fyrstu skóflustungu fangelsisbyggingar á Hólmsheiði 4. apríl.
Innanríkisráðherra tók fyrstu skóflustungu fangelsisbyggingar á Hólmsheiði 4. apríl.

Nýja fangelsið verður með 56 fangarýmum þar sem verður sérstök deild fyrir kvenfanga og aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Nýja fangelsið á að leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík og fangelsið í Kópavogi. Einnig verður gæsluvarðhaldsdeild í fangelsinu á Litla Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun.

Innanríkisráðherra tók fyrstu skóflustungu fangelsisbyggingar á Hólmsheiði 4. apríl.Í ávarpi sínu sagði innanríkisráðherra ennfremur að nú, 140 árum eftir að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var tekið í notkun sem fangelsi „förum við aftur af stað og reisum fangelsi. Það var tími til kominn. Undirbúningur hefur staðið í rúmlega 50 ár. Árið 1960 var Valdimar Stefánssyni yfirsakadómara falið að setja fram tillögur um nýtt fangelsi við Úlfarsá. Verkefnið náði ekki lengra og síðan höfum við fengið fleiri tillögur, athuganir, skýrslur og úttektir. Ríkisstjórnin ákvað í ágúst 2011 að hefjast handa um úrbætur í fangelsismálum. Var ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um hönnun fangelsis á Hólmsheiði.”

Samkeppni um listskreytingu

Jarðvegsframkvæmdir hefjast í næstu viku en útboð vegna byggingarinnar sjálfrar fer fram í vor. Taka á fangelsið í notkun haustið 2015. Þá hefur verið auglýst opin samkeppni um listskreytingar í fangelsinu samkvæmt lögum um opinberar byggingar og er skilafrestur til kl. 15 föstudaginn 17. maí. Markmiðið með samkeppninni er að fá tillögur um listskreytingu fangelsisins og eru keppnissvæðin þrjú: Við göngustíg milli bílastæðis og aðalinngangs, í útivistargörðum fanga og í þriðja lagi í innigarða fangelsisins.

Pálll E. Winkel flutti einnig ávarp.Innanríkisráðuneytið stefnir að því að fimm fangelsi verði rekin á vegum Fangelsismálastofnunar ríkisins árið 2015, eitt móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuð-borgarsvæðinu, sem jafnframt mun gegna hlutverki kvennafangelsis sem er hið nýja fangelsi, lokað afplánunarfangelsi á Suðurlandi sem er Litla-Hraun, fangelsi á Akureyri og tvö afplánunarfangelsi með lágt öryggisstig sem eru Kvíabryggja og Sogn.

Forsagan

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði mun marka tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi. Síðasta sérsmíðaða fangelsið á Íslandi, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg var reist og tekið í gagnið árið 1875, fyrir tæplega 140 árum síðan. Fangelsið á Litla Hrauni var upphaflega byggt sem Sjúkrahús Suðurlands en hætt var við þau áform. Landsstjórnin keypti bygginguna árið 1929 og breytti í fangelsi.

Arkís arkitektar ehf. hlutu fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni en niðurstöður hennar voru kynntar snemmsumars 2012. Höfundar tillögunnar eru Björn Guðbrandsson og Arnar Þór Jónsson arkitektar. Ráðgjafar voru Birgir Teitsson, Egill Guðmundsson og Friðrik Friðriksson arkitektar.

Innanríkisráðherra tók fyrstu skóflustungu fangelsisbyggingar á Hólmsheiði 4. apríl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum