Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. apríl 2013 Forsætisráðuneytið

Meðferð arðs af auðlindum þjóðarinnar

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu forsætisráðherra um að fela starfshópi fjögurra ráðuneyta að hefja undirbúning að stofnun auðlindasjóðs. Hópnum verður jafnframt falið að gera tillögu að nýrri skilgreiningu á núgildandi  stjórnskipulagi auðlindamála og þjóðlendna. Þetta verði gert til að fylgja eftir þegar samþykktri stefnumótun í auðlindamálum og tryggja að arður af auðlindunum verði sýnilegur og að hann nýtist komandi kynslóðum. Ráðgert er að vinna starfshópsins auðveldi undirbúning ákvarðana af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis.

Með stofnun auðlindasjóðs  verður m.a. leitast við að tryggja að komandi kynslóðir njóti góðs af þeim arði sem stafar af hugsanlegri nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda innan íslenskrar lögsögu og þeim fjármunum sem þegar liggja fyri vegna nýtingar vatnsréttinda í þjóðlendum. Í þessum efnum er meðal annars vísað til fordæmisins frá Noregi um lífeyrissjóð norsku þjóðarinnar,  olíusjóðinn svonefnda.

Forsætisráðuneytið hefur þegar tekið við 923 milljónum króna á grundvelli laga um þjóðlendur sem greiðslu vegna nýtingar vatnsréttinda í þjóðlendum og er gert ráð fyrir að stærstur hluti þess fjármagns renni til Auðlindasjóðsins.

Verkefni hópsins verður einnig fólgið í því að hefja samráð við hagsmunaaðila og önnur ráðuneyti um um útfærslu á auðlindarentu í  orkugeiranum í samræmi við þegar samþykkta stefnumörkun í auðlindamálum.

Starfshópurinn skal loks fara yfir nýtingu auðlinda og annarra takmarkaðra gæða sem ósamið eru um á jörðum og lendum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins.

Ofangreindur starfshópur verður skipaður fulltrúum forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum