Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. apríl 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný heildarlög um náttúruvernd

Hjörleifshöfði
Hjörleifshöfði

Alþingi samþykkti ný heildarlög um náttúruvernd á lokadegi þingsins í mars. Lögin eru um margt ítarlegri en eldri lög og fela í sér mikilvægar breytingar og nýmæli í íslenskri náttúruverndarlöggjöf. Meðal annars eru útfærðar í þeim nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar, staða almannaréttar er styrkt og stjórnvöld fá auknar heimildir til þess að bregðast við brotum.

Meðal breytinga sem hin nýju lög mæla fyrir um eru ítarlegri markmiðsákvæði og er kveðið á um nokkrar meginreglur sem leggja ber til grundvallar við framkvæmd laganna. Þar á meðal eru nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar, s.s varúðarreglan og greiðslureglan. Varúðarreglan er í anda Ríó-yfirlýsingarinnar og felur í sér að sé óvissa um afleiðingar athafna eða eftir atvikum athafnaleysis skuli náttúran njóta vafans. Þá er með ítarlegri hætti en áður mælt fyrir um undirbúning ákvarðana og réttaráhrif þeirra og lögð áhersla á vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku.

Staða almannaréttar er einnig styrkt í lögunum og er heimild til að óska úrlausnar Umhverfisstofnunar um ólögmætar hindranir nýmæli. Fjallað er um náttúruminjaskrá sem er ætlað að vera nýtt meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi og gengið er út frá auknu samráði við gerð áætlana.

Lagðar eru til breytingar hvað varðar friðlýsingar og m.a. er flokkum þeirra fjölgað með það fyrir augum að endurspegla betur markmið friðlýsinga og er sérstaklega mælt fyrir um friðlýsingar vatnasvæða. Ákvæði um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda eru ítarlegri en í gildandi lögum og sérstakur kafli fjallar um innflutning og dreifingu framandi lífvera.

Lögin kveða einnig á um sérstakan Náttúruverndarsjóð sem er ætlað að stuðla að náttúruvernd og umönnun náttúruminja og auka fræðslu. Þá er gerð kortagrunns með upplýsingum um vegi og vegslóða landsins nýmæli í lögunum. 

Ný lög um náttúruvernd taka gildi í apríl 2014 og falla þá úr gildi eldri náttúruverndarlög, nr. 44/1999.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum