Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 16. apríl 2013

Fundargerð 82. fundar, haldinn hjá Rauða krossinum á Íslandi Efstaleiti 9, Reykjavík, þriðjudaginn 16. apríl 2013, kl. 14.00 – 16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ingibjörg Broddadóttir, velferðarráðuneyti, Lovísa Lilliendahl, velferðarráðuneyti, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Elín Rósa Finnbogadóttir, varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Margrét Steinarsdóttir, tiln. af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Svanborg Sigmarsdóttir, varamaður Ástu S. Helgadóttur, tiln. af Umboðsmanni skuldara, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af Embætti landlæknis, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, varamaður Unnars Stefánssonar, tiln. af Landssambandi eldri borgara, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu ásamt Sædísi Arnardóttur, nema, Hjálparstarfi kirkjunnar, Garðar Hilmarsson, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg og Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir, velferðarráðuneyti sem ritaði fundargerð.

Gestir fundarins:  Helga Ágústsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneyti og Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Formaður setti fund og kynnti gesti fundarins, annars vegar Helgu Ágústsdóttur, sérfræðing í velferðarráðuneyti og að kynning hennar fjallaði um nýtt samkomulag um tannlækningar barna og hins vegar Steingrím Ara Arason, forstjóra Sjúkratrygginga og að kynning hans fjallaði um ný lyfjalög og framkvæmd þeirra.  Þótt hvorugur þessara málaflokka snerti efnahagshrunið þá hafa þeir mjög mikil áhrif á afkomu fólks.

1.    Fundargerðir 80. og 81. fundar.

Fundargerðirnar bornar upp og þær samþykktar.

2.    Kynning á nýju samkomulagi um tannlækningar barna.

Helga Ágústsdóttir, sérfræðingur og tannlæknir í velferðarráðuneyti kynnti samninginn og eru helstu atriði eftirfarandi:

Langur aðdragandi: Tannlæknar hafa fram til þessa verið án samnings í um 21 ár en síðast var samið um heildarsamning við þá á árinu 1992. Helga rakti söguna frá 2001 en einkum samningsferlið undanfarin misseri þar sem velferðarráðherra hefur lagt áherslu á að vinna verkið í sátt og samvinnu við alla málsaðila.
Starfshópurinn: Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá Sjúkratryggingum Íslands, Tannlæknafélagi Íslands, Embætti landlæknis, heilsugæslunni, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og velferðarráðuneyti og skilaði í kjölfarið tillögum sínum til ráðherra.
Samningurinn mun taka gildi þann 15.05.2013 og er gildistími hans til aprílloka 2019.
Gert er ráð fyrir að tannlæknaþjónusta við börn verði innleidd í áföngum og byrjað á elstu börnunum og einum árgangi af þeim yngstu í leiðinni.
Heimilistannlæknar:  Gert er ráð fyrir að hvert barn fái sinn heimilistannlækni sem verða staðsettir á stofum sínum en ekki í heilsugæslunni.
Börnin sem samningurinn tekur til síðar.
Mestar áhyggur eru af þeim börnum sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og áætlað er að gera sérstakar ráðstafanir þeirra vegna.

Samantekt og glærur Helgu má sjá á vefslóð ráðuneytisins, http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/33829
 
Líflegar umræður voru að að lokinni kynningu Helgu og kom m.a. fram:

  • Að tannréttingar falla ekki undir samninginn.
  • Að skólatannlækningar, sem voru gott fyrirkomulag á sínum tíma, eru ,,barn síns tíma” og verða væntanlega ekki teknar upp aftur.
  • Að þegar barn fer í 6 ára bekk verða foreldrar þess beðnir um að skrá tannlækni barnsins.
  • Að forvarnir í tannheilsu barna eru hluti af almennri lýðheilsu. Fram kom að þessu er misjafnlega háttað á Norðurlöndunum.
  • Að ríkissjóður á fyrir þessum útgjöldum vegna samningsins í ár þar sem afgangur er frá fyrra ári en á næsta ári þarf að bæta í.

Rætt var auk þess um tannlæknaþjónustu úti á landi og benti Helga á forvarnarverkefnið sem felst í tannburstun barna á leikskólum.

Að lokum benti Lára á mikilvægi þess að kynna þennan nýja samning vel og að upplýsingar um hann væru öllum aðgengilegar.

3.    Kynning á nýjum lyfjalögum og framkvæmd þeirra.

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Þrenns konar fyrirkomulag vegna greiðslu lyfja:

  1. S-merkt lyf (sjúkrahúslyf) sem veitt eru sjúklingum þeim alltaf að kostnaðarlausu.
  2. Almenn lyf þar sem ríkið hefur verið að greiða 75% með 25% kostnaðarþátttöku sjúklings.
  3. Ákveðin lyf hafa verið sjúklingum að kostnaðarlausu.

Hlutfall uppsafnaðrar notendagreiðslu af heildarlyfjakostnaði

Nýju lögunum er ætlað að hafa jöfnunaráhrif. Vandamálið er háar greiðslur í upphafi.  Steingrímur upplýsti að útgjöld vegna barna í sömu fjölskyldu (skv. skilgreiningu þjóðskrár) legðust saman eins og um einn einstakling væri að ræða og þannig nýtur fjölskyldan þess. Steingrímur vakti ennfremur athygli á því að ungmenni, sem eru á aldrinum 18-21 árs, munu fá ívilnun varðandi lyfjakostnað.

Allir þeir sem greiða yfir 40 þúsund í lyf munu hagnast með breyttum lyfjalögum. 

Vegna hárrar upphafsgreiðslu var bent á lyfjaskömmtunina, þ.e. fá minni lyfjaskammt, t.d. mánaðarskammt í stað þriggja mánaða.  Einnig var bent á félagslega úrræðið hjá TR en þar eru þó sett ströng mörk.

Tilmæli hafa borist frá velferðarráðuneytinu til SÍ um að sjúklingum verði boðið upp á greiðsluskiptingu í apótekum.

Umræður

Í upphafi kom fram af hálfu ýmissa fundarmanna að nýju lyfjalögin, sem taka gildi 4. maí nk., munu hafa mikil áhrif á þá sem standa höllum fæti.

Endurgreiðslufyrirkomulagið miðast við árið og frá dagsetningu fyrstu lyfjakaupanna, núllast ekki við áramót.

Steingrímur Ari benti á að samvinna væri á milli SÍ og apótekanna um rafræn sjúkraskír-teini, SÍ reiknar út en ekki apótekin eins og áður.

Þá kom fram að mikið hefur verið hringt til ÖBÍ og fólk hefði miklar áhyggjur.  Spurt var hvers vegna þessum háu upphafsgreiðslum væri ekki dreift og þeim jafnað.  Í því sambandi var bent á lyfjaskömmtunina þar sem stórir skammtar væru brotnir niður. Þá var bent á reiknivélina hjá SÍ.  Allar upplýsingar væru í innri réttindagáttinni og má finna á sjukra.is.

Hvort sparnaður fylgdi í kjölfar lagabreytingarinnar var því svarað að ekki væri reiknað með sparnaði fyrir ríkið, þetta væri fyrst og fremst tilfærsla.  Gert verður ráð fyrir því að einn læknir verði ábyrgur til að koma í veg fyrir að margir læknar væru að ávísa lyfjum á sama einstakling.

4.    Önnur mál.

Lára ræddi um undirbúning áfangaskýrslu/lokaskýrslu velferðarvaktarinnar. Hún óskaði eftir því að fundarmenn ræddu við sitt bakland til að taka stöðuna og skrifi og skili samantekt sem efni í skýrsluna.

Tillaga var gerð um að fundarefni næsta fundar yrði kulnun og álag í starfi þeirra sem vinna við að aðstoða fólk í vanda (Vilborg Oddsdóttir).

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 7. maí 2013.


Fundi slitið kl. 16:30.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum