Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. apríl 2013 Utanríkisráðuneytið

Umræðan sem Davíð drap

Össur Skarphéðinsson skrifar:

Hluti af dramatíkinni sem geisar í Sjálfstæðisflokknum um þessar mundir stafar af því að Sjálfstæðisflokkurinn gerði aldrei upp við hrunið. Þó var það sannarlega ætlun flokksins og sömuleiðis að draga af því lærdóma sem mættu verða þjóðinni og flokknum til gagns og heilla. Sjálfstæðismenn, sem upp til hópa eru ærlegt fólk, gerðu þó heiðarlega tilraun til að gera upp við hrunið og hvað mætti af því læra til að koma í veg fyrir að þjóðin lenti aftur í slíkum hremmingum.

Kinnristur ritstjórans

Á vegum flokksins var samin mjög merkileg Endurreisnarskýrsla, sem unnin var með þátttöku hundraða sjálfstæðismanna, m.a. með fundum um allt land. Endureisnarkýrslan var lögð fram á landsfundi flokksins 2009, en var drepin á staðnum með frægri ræðu núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Davíðs Oddssonar. Hann var forsætisráðherra og formaður flokksins á þeim tíma þegar þær ákvarðanir voru teknar, sem rannsóknarskýrsla Alþingis sagði að hefðu leitt til hrunsins.

Vilhjálmur Egilsson, þekktur fyrir drengskap og sanngirni, var ritstjóri Endurreisnarskýrslunnar, og sagði í viðtali við Viðskiptablaðið á fimmtudaginn í síðustu viku, að Davíð mætti skammast sín fyrir málflutning sinn gagnvart Endurreisnarskýrslunni á landsfundinum 2009. Benedikt Jóhannesson, gegnumsver íhaldsmaður ef einhver er það, hefur sömuleiðis gagnrýnt hann harðlega fyrir að hafa komið í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn gerði upp við fortíðina, og tengt það - réttilega - núverandi óförum flokksins.

Þessu svarar Davíð í Reykjavíkurbéfi sem er vettvangur hans til að endurskrifa söguna og hreinsa sjálfan sig bæði af því að hafa rústað þjóðarhag, Seðlabankanum, og nú síðast Sjálfstæðisflokknum. »Skýringin á dularfullum endalokum hinnar dásamlegu skýrslu, sem sumir harma svo mjög, getur ekki verið svo yfirnáttúruleg. Það væri jafnvel trúverðugra að halda því fram að geimverur hefðu gleypt hana á meðan landsfundarfulltrúar sváfu og Villi og Benni gengu í svefni í ESB.«

Sannleikurinn barinn í hel

Eyrnafíkjurnar sem aðalhöfundur hrunsins sendir þeim félögum lýsa upp aðalástæðuna fyrir fyrir því að Davíð Oddsson snerist svo harkalega gegn Endurreisnarskýrslunni. Í henni er lýst skorinort þeim lærdómi sjálfstæðismanna um land allt af hruninu að krónan væri „rúin trausti“, umsókn um aðild að Evrópusambandinu væri nauðsynleg til að senda „afar sterk skilaboð til alþjóðasamfélagsins um stefnumótun Íslendinga til framtiðar,“ og íslenska þjóðin þurfi „að geta sagt álit sitt á aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu“.

Þetta var sannleikurinn sem þurfti að berja í hel. Í þeim tilgangi hefur Davíð síðan misnotað Morgunblaðið, dyggilega fjármagnað af stórútgerð Íslands, stillt byssur sínar við hvert tækifæri á forystulausan flokk, og í reynd rústað Sjálfstæðisflokknum með því að lyfta gömlum höfuðandstæðingi, Framsóknarflokknum, sem bjargvætti Íslands - og helsta kosti „sannra“ sjálfstæðismanna.

Endurreisnarskýrsla Sjálfstæðisflokksins

Það sem ekki mátti segja, og aldrei verða að stefnu Sjálfstæðisflokksins, er eftirfarandi kafli sem er merkilegasta niðurstaða Endurreisnarskýrslu Sjálfstæðisflokksins, uppgjörs flokksins við hrunið:

„4. Framtíð íslensku krónunnar

  • Íslenska krónan er gjaldmiðill sem rúinn er trausti á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði. Vantraust erlendra aðila snýr ekki aðeins að krónunni heldur einnig íslensku laga- og reglugerðarumhverfi en markaðsaðilum og fjárfestum fannst að með neyðarlögum væri reglum breytt afturvirkt.
  • Einhliða upptaka erlendrar myntar er óframkvæmanleg án stuðnings frá seðlabanka viðkomandi ríkis og skuldbindingar um svipaða þróun helstu hagstærða í báðum löndum.
  • Umsókn um aðild að Evrópusambandinu og myntsamstarfi Evrópu sendir afar sterk skilaboð til alþjóðasamfélagsins um stefnumótun Íslendinga til framtíðar.
  • Umsókn þýðir að stofnanir bandalagsins geta þegar hafið aðstoð við endurreisn efnahags og atvinnulífs á Íslandi.
  • Náist samningar þarf þjóðin að geta sagt álit sitt á aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Höfundur er utanríkisráðherra.


Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2013


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum