Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. maí 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hraðar loftslagsbreytingar ógnun við lífríki Norðurslóða

Frá Grænlandi
Frá Grænlandi

Loftslagsbreytingar eru helsta ógn við lífríki Norðurslóða, að því er fram kemur í nýrri úttekt á líffræðilegri fjölbreytni á svæðinu, sem kynnt var á nýafstöðnum ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Kiruna í Svíþjóð. Hlýnun er um tvöfalt hraðari á Norðurheimskautssvæðinu en að meðaltali á jörðinni og hefur hafís hopað mun hraðar en búist var við. Súrnun hafsins er líka meiri í Norðurhöfum en sunnar á hnettinum og er ein helsta ógn við lífríki hafsins þar, sem er viðkvæmt fyrir breytingum af því tagi.

Málefni Norðurslóða hafa fengið stóraukið pólitískt vægi á síðustu árum, sem endurspeglast í efldu starfi Norðurskautsráðsins. Uppistaðan i starfi ráðsins felst í verkefnum og úttektum á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar. Skrifstofur tveggja af sex vinnuhópum ráðsins eru staðsettar á Íslandi, um vernd umhverfis hafsins (PAME) og vernd dýra og jurta (CAFF). Báðir þessir vinnuhópar kynntu stór verkefni á ráðherrafundinum.

Tímamótaúttekt á lífríki Norðurslóða

Ný matsskýrsla um líffræðilega fjölbreytni á Norðurslóðum (Arctic Biodiversity Assessment, ABA) var kynnt á fundinum, en en þar er að finna mat á ástandi lífríkisins á svæðinu, auk þess sem ógnir við lífríkið eru kortlagðar og lagðar til aðgerðir til að mæta þeim. ABA skýrslan er unnin af 260 vísindamönnum og er fyrsta heildstæða matið á lífríki norðurslóða. Þar kemur m.a. fram að yfir 20.000 tegundir dýra, jurta og sveppa finnast á Norðurslóðum og stór hluti svæðisins er lítt snortinn. Margvísleg not eru af lífríkinu, m.a. kemur um 10% af fiskafla heimsins af Norðurslóðum og veiðar eru snar hluti af lífsviðurværi frumbyggja svæðisins. Almennt á líffræðileg fjölbreytni á svæðinu undir högg að sækja. Til lengri tíma eru loftslagsbreytingar ein helsta ógnin, en hlýnun er óvíða meiri á jörðinni en á nyrstu svæðum hennar. Lífbelti og búsvæði tegunda þokast norður með hlýnandi loftslagi og hopandi hafís og sífrera og gerir hraði breytinganna lífverum erfiðara fyrir en ella að aðlagast breytingum.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um ABA skýrsluna á heimasíðu verkefnisins: http://www.arcticbiodiversity.is/images/PressRelease/ABA_web_story_islenska_final.pdf

Súrnun óvenju hröð í Norðurhöfum

Kynnt var ný úttekt á málefnum hafsins á Norðurslóðum og samþykktu ráðherrarnir að vinna að ýmsum aðgerðum á grundvelli niðurstaðna hennar, sem m.a. lúta að bættu öryggi siglinga, bættum viðbúnaði við olíuslysum og vernd lífríkis hafsins.

Niðurstöður úttektar á súrnun hafsins í Norðurhöfum var kynnt á fundinum, en helstu skilaboðin þar eru að súrnun er einna hröðust þar í heimshöfunum, sem bætist við aðrar breytingar á vistkerfi hafsins vegna loftslagsbreytinga. Almennt er sjór að hlýna á Norðurslóðum, hafís hopar mun hraðar en spáð hafði verið og selta fer víða minnkandi vegna aukins streymis ferskvatns frá bráðnandi jöklum. Súrnun bætist við þessi áhrif, en hún kemur til vegna efnabreytinga vegna aukinnar upptöku á koldíoxíði (CO2) úr andrúmslofti. Magn CO2 í lofthjúpnum eykst stöðugt af mannavöldum, einkum vegna bruna á jarðefnaeldsneyti, en um 25% af koldíoxíði sem fer í andrúmsloftið endar í hafinu. Norðurhöf eru talin sérstaklega viðkvæm fyrir súrnun, sem getur haft áhrif á getu ýmissa lífvera, s.s. skeldýra og margra svifþörunga, til að mynda stoðgrindur.

Nýr samningur um viðbrögð við olíumengun

Ráðherrar ríkjanna átta sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu skrifuðu á fundinum undir samning um samvinnu við viðbrögð gagnvart olíuslysum á svæðinu. Samningurinn byggir á sambærilegum samningum ríkja við Norður-Atlantshaf, en tekur mið af sérstökum aðstæðum á Norðurslóðum og styrkir það fyrirkomulag sem er við lýði um fjölþjóðlega samvinnu í þessum efnum. Umhverfisstofnun fer með framkvæmd samningsins fyrir Íslands hönd í samvinnu við aðrar stofnanir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum