Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. júní 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra ráðherra við afhjúpun heimsminjaskjaldar um Surtsey

 

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra sagði eftirfarandi orð við afhjúpun skjaldar um heimsminjastaðinn Surtesy þann 5. júní 2013.

 

Bæjarstjóri, Vestmanneyingar, aðrir góðir gestir
Það er mér sérstök ánægja og heiður að fá að taka þátt í þessari athöfn hér í Vestmannaeyjum. Við erum hér saman komin til að heiðra eitt merkilegasta fyrirbæri íslenskrar náttúru og þeirra öflugu krafta sem hana móta, og er þar sannanlega af miklu að taka;
Rís úr djúpi Ránar ey,
rjóð í kuldagjósti.
Ber hún eins og yngismey
yl í hvelfdu brjósti.

Svo var ort um eyjuna sem reis úr hafi hér við Vestmannaeyja fyrir 50 árum eða árið 1963, áður en hún fékk nafn.  Um nafngiftina var hins vegar farið í brunn Völuspár og eyjan nýja kölluð Surtsey eftir jötninum mikla Surti.

Um Surt sjálfan segir svo í Völuspá:

Surtur fer sunnan
með sviga lævi,
skín af sverði
sól valtíva,
grjótbjörg gnata,
en gífur rata,
troða halir helveg,
en himinn klofnar.

Þessi myndlíking átti vel við um þær hamfarir þegar eyjan reis úr sæ.
Í hugum okkar Íslendinga er Surtsey einstök, ekki síst þeirra sem muna eftir Surtseyjargosinu fyrir 50 árum, fylgdust með því og myndun og þróun eyjarinnar meðan á gosinu stóð.

En Surtsey er ekki bara einstök í augum okkar Íslendinga.  Vegna sérstöðu eyjarinnar var hafist handa fyrir um átta árum að undirbúa tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna UNESCO.Talið var að myndun Surtseyjar, jarðfræðileg uppbygging og gerð eyjarinnar væri það sérstæð á heimsvísu að hún ætti heima á heimsminjaskránni. Auk þess var talið að rannsóknir og áralöng vöktun á breytingum og landnámi lífvera í Surtsey styddu tilnefninguna.

Það er hins vegar ekki auðvelt að komast á skrá UNESCO.
Til þess að komast á heimsminjaskrána þurfa staðir sannanlega að vera einstakir á heimsvísu. Það er þó ekki eina skilyrðið, því annar sambærilegur staður má ekki vera fyrir á skránni. Þetta var tilfellið þegar Surtsey kom til umfjöllunar hjá alþjóðlegri heimsminjanefnd UNESCO en jarðfræðilega sambærilegur staður reyndist vera til á svokölluðum Jeju eyjum í Suður-Kóreu sem hafði nýlega verið tekinn inn á heimsminjaskrána. 

Surtsey komst þannig ekki á listann vegna einstakra jarðminja. Hins vegar var það einangrun eyjarinnar frá upphafi og vöktun á breytingum og landnámi lífvera sem skipti sköpum og var að mati UNESCO talið það einstakt á heimsvísu að Surtsey var tekin inn á heimsminjaskrána í júlí árið 2008. Það má því segja að það sé fyrirhyggju áhrifamanna hér, stjórnmála- og vísindamanna strax í upphafi gossins að þakka að við erum að afhjúpa þennan skjöld hér í Vestmannaeyjum til þess að vísa á og upplýsa gesti um heimsminjastaðinn Surtsey. Það er sameiginleg skylda okkar að standa vörð um Surtsey og sjá til þess að  gildi hennar haldist og spillist ekki í framtíðinni og jafnframt ber okkur að tryggja áfram sambærilegar aðstæður til rannsóknir og vöktun jarðminja og lífríkis í og við eyjuna.

Það er ekki síður mikilvægt að almenningur og ferðamenn hafi aðgang að gestastofunni um Surtsey þar sem þeir geta kynnst sögu Surtseyjar og fræðst um rannsóknir, vöktun og líklega þróun eyjarinnar og lífríkis hennar næstu áratugina. Sameiginlegt húsnæði með Eldheimum setur sögu Surtseyjar betur í samhengi við sögu Vestmannaeyja og Heimaeyjagossins. Spálíkan um þróun Surtseyjar bendir til þess að hún muni á endanum líkjast öðrum eyjum hér í Vestmannaeyjum að allri gerð, lögun og lífríki. Það er því áhugavert að setja eyjarnar í samhengi hverja við aðra til að skilja betur þessa mótandi krafta náttúrunnar.

Rannsóknir á Surtsey hafa fengið mikla athygli undanfarin 50 ár og áfram þarf að halda á þeirri braut. Einnig er áhugavert að efla rannsóknir á lífríki og náttúru Vestmannaeyja almennt. Þar skiptir miklu að leita leiða til að efla og styrkja starfsemi hér í eyjunum ss. Náttúrustofu Suðurlands.

Afar mikilvægt er að góð samvinna sé, og virk þátttaka sveitarfélagsins um heimsminjastaðinn og kynningu hans. Í því sambandi er rétt að minnast þess, að á umsóknatímanum var þáttur sveitarfélagsins mjög mikilvægur og góður stuðningur þess við tilnefninguna skipti miklu að það tækist að koma eynni á listann. Af því tilefni vil ég nota þetta tækifæri til þess að afhenda Vestmannaeyjabæ afrit af skjali UNESCO um að Surtsey hafi verið tekin inn á heimsminjaskrána.

Auk þess vil ég afhenda Umhverfisstofnun samskonar skjal sem hægt er að setja upp í Surtseyjastofu því til vitnis að eyjan sá á heimsminjaskránni. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu er hins vegar vörsluaðili heimsminjasamningsins og ber megin ábyrgð á samningnum og framkvæmd hans hér á landi.

Góðir gestir,

Hér í Vestmannaeyjum er einstök náttúra, sem hefur fóstrað öflugt mannlíf og blómlega byggð. Eyjamenn þekkja vel mikilvægi þess að ganga vel um auðlindir og að þær séu nýttar á sjálfbæran hátt með sjónarmið verndunar og nýtingar að leiðarljósi.

Það er gaman að geta, á sínum fyrstu dögum í starfi umhverfis - og auðlindaráðherra, komið hingað til Vestmannaeyja og tekið þátt í að vekja athygli á friðlandinu í Surtsey og stöðu þess á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Ég óska okkur öllum til hamingju með þennan merkilega áfanga;

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum