Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. júní 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra leggur fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, lagði fram á Alþingi í dag tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda íslenskra heimila. Þar er lagt til að Alþingi álykti að ríkisstjórnin skuli með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila, sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra húsnæðislána, sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010. Um er að ræða almennar aðgerðir óháðar lántökutíma með áherslu á jafnræði og skilvirkni úrræða.

Í kjölfar hruns fjármálakerfisins á Íslandi haustið 2008 hækkuðu verðtryggðar skuldir og eignaverð lækkaði m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins. Mikill meirihluti íslenskra heimila fjármagnar kaup á íbúðarhúsnæði með verðtryggðum lánum. Fjárfesting í húsnæði er algengasta sparnaðarform íslenskra fjölskyldna og hefur almennt verið litið á íbúðarhúsnæði sem eignamyndun yfir lengri tíma. Að sama skapi fer umtalsverður hluti ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað. Hvert og eitt heimili í landinu er því háð þeim forsendum sem liggja til grundvallar fjármögnun íbúðarhúsnæðis.

Við ákvörðun um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði leggja heimili landsins ákveðnar forsendur til grundvallar, sem snúa einkum að áætluðum ráðstöfunartekjum, fjármagnskostnaði,  áætlaðri eignamyndun o.s.frv. Í aðdraganda og í kjölfar falls bankanna brustu þessar forsendur að miklu leyti með lamandi áhrifum á heimilin. Sökum verðtryggingar á lánum hafa auknar skuldbindingar heimila leitt til eignamyndunar fjármagnseigenda einkum í gegnum Íbúðalánasjóð, bankana og lífeyrissjóði.

Aðgerðirnar eru:

  1. Settur verði á fót sérfræðingahópur er útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Tillögur liggi fyrir í nóvember 2013.
  2. Gerð verði úttekt á kostum og göllum þess að stofna sérstakan leiðréttingasjóð  vegna húsnæðislána. Tillögur að mögulegum útfærslum liggi fyrir í nóvember 2013.
  3. Kannað skal hvernig gera megi yfirskuldsettum íbúðareigendum kleift að losna undan eftirstöðvum, sem veðið sjálft stendur ekki undir, án gjaldþrots. Um væri að ræða tímabundna aðgerð sem miðar að því að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Niðurstaða liggi fyrir í september 2013.
  4. Skipuð verði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Tillögur liggi fyrir í upphafi árs 2014.
  5. Lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldvanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Frumvarp lagt fram á sumarþingi 2013.
  6. Sett verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í lok árs 2013.
  7. Kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Tillögur liggi fyrir í september 2013.
  8. Sérfræðingahópur meti möguleika á því að leggja gjald á fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána. Tillögur liggi fyrir í ágúst 2013.
  9. Stimpilgjöld af lánsskjölum verði endurskoðuð og stefnt að afnámi stimpilgjalda vegna kaupa einstaklinga á húnæði til eigin nota.  Frumvarp verði lagt fram á haustþingi 2013.
  10. Hagstofa Íslands fái skýrar heimildir til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Frumvarp verði lagt fram á sumarþingi 2013.

Gert er ráð fyrir að ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna hafa eftirlit með verkefninu í heild en einstakir ráðherrar sem eiga sæti í henni beri ábyrgð á tilteknum aðgerðum. Við vinnuna verður lögð áhersla á að leita eftir víðtækri sátt um þær leiðir sem farnar verða til að ná þeim markmiðum að taka á skuldavanda íslenskra heimila. Þá mun forsætisráðherra í upphafi haustþings 2013 og vorþings 2014 gera Alþingi grein fyrir stöðu vinnslu og framkvæmdar einstakra aðgerða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum