Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. júní 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mælti fyrir lagabreytingu um flýtimeðferð mála um gengistryggð eða vísitölutryggð lán

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti í kvöld fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála sem miðar að því að hraðað verði dómsmálum sem lúta að ágreiningi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Þetta var jómfrúarræða innanríkisráðherra á Alþingi. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi og að þau gildi út árið 2014.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er kveðið á um að unnið verði að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja fái eins hraða meðferð og mögulegt er þar sem óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verði að linna. Kemur fram í greinargerð frumvarpsins að það sé liður í því að fullnægja þessu markmiði. 

Tímabundið ákvæði

Í ræðu sinni sagði innanríkisráðherra meðal annars: ,,Með frumvarpi þessu er lagt til að í lög um meðferð einkamála verði sett tímabundið ákvæði sem kveður á um að varði ágreiningur í dómsmáli lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjör slíkra skuldbindinga þá skuli hraða meðferð slíks máls fyrir dómstólum.

Ástæðan fyrir framlagningu frumvarpsins nú er augljós. Þrátt fyrir að niðurstöður dómstóla undanfarin ár hafi verið fordæmisgefandi fyrir mál er upp hafa risið um lögmæti fjárskuldbindinga sem um ræðir í frumvarpi þessu – eru enn ýmis ágreiningsatriði óleyst og mikilvægt að niðurstaða í þeim málum fáist hið allra fyrsta. Er því lagt til í frumvarpi þessu að þau mál þar sem ágreiningur er um lögmæti gengis- eða vísitölutryggingar skuldbindinga eða uppgjörs slíkra skuldbindinga fái hraða meðferð í gegnum dómskerfið. Í þeirri heimild felst að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.”

Í greinargerð með frumvarpinu segir einnig að á fyrri þingum hafi verið flutt frumvörp sem kveða á um að mál er varða lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við verðlag eða við gengi gjaldmiðla og um skilmála slíkra skuldbindinga, svo sem um vexti, skuli sæta flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laganna um flýtimeðferð. Ljóst sé að niðurstöður dómstóla undanfarið hafa að miklu leyti verið fordæmisgefandi fyrir stóran hluta ágreiningsmála er upp hafa risið um lögmæti fjárskuldbindinga sem um ræðir í frumvarpi þessu. Enn séu þó ýmis ágreiningsatriði óleyst og mikilvægt að niðurstaða í þeim málum fáist hið fyrsta. Er því lagt til í frumvarpinu að þeim málum þar sem ágreiningur er af því tagi sem lýst er í frumvarpinu megi veita forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum.

Undir lok ræðu sinnar sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir einnig: ,,Eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skal unnið að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja fái eins hraða meðferð og mögulegt er þar sem óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verði að linna. Er frumvarp þetta liður í því að fullnægja þessum markmiði. Frumvarpið er einnig mikilvægur þáttur í þeirri þingsályktunartillögu sem hæstvirtur forsætisráðherra kynnti í stefnuræðu sinni hér á Alþingi í gærkvöldi og mikilvægur þáttur í því að forgangsraða mjög ákveðið og eindregið á þessu sumarþingi í þágu skuldavanda heimilanna. Miðað við þær umræður sem verið hafa, bæði meðal þingmanna hér í þessum sal og í samfélaginu almennt – vænti ég þess, virðulegur forseti, að um frumvarpið skapist góð, víðtæk og mikilvæg sátt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum