Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. júní 2013 Forsætisráðuneytið

Hagstofu gert kleift að afla áreiðanlegra upplýsinga um skuldastöðu heimila

Hagstofa Íslands
Hagstofa Íslands
Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð. Í því felst að tekin verði af öll tvímæli um að Hagstofunni sé heimilt að óska eftir upplýsingum frá fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri um lánveitingar þeirra til þriðja aðila og varða hagskýrslugerð Hagstofunnar. Þannig verður Hagstofunni gert kleift að gefa út tölfræðilegar upplýsingar um stöðu og þróun skuldamála hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Hagstofan hefur um hríð undirbúið það verkefni að safna og vinna tölfræði um skuldir heimila og fyrirtækja. Hún hefur aðgang að upplýsingum frá skattyfirvöldum en í ljós hefur komið að þær eru ekki nægilega ítarlegar auk þess sem þær eru ekki eins tímanlegar og æskilegt væri. Fjárveitingar eru tryggðar í fjárlögum til verkefnisins. Hins vegar hefur verið uppi óvissa um hvort lagalegar heimildir til slíkrar gagnaöflunar frá fjármálastofnunum væru nægilega skýrar.

Framlagning þessa frumvarps er einn liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar varðandi skuldamál heimilanna. Þannig verður lagður grundvöllur að stefnumótun stjórnvalda og mati á árangri aðgerða á sviði skulda, greiðslubyrði og greiðsluvanda.

Með frumvarpinu er bætt ákvæðum við lög nr. 163/2007 til að hnykkja á því að útgáfa tölfræði um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtæka sé hluti af verkefnum Hagstofunnar. Þá er tilgreint hvaða upplýsingar það eru sem Hagstofan má afla frá fjármálafyrirtækjum, þ.e. einkum upplýsingar um lántaka, stöðu lána og skilmála þeirra. Jafnframt er áréttað að þagnarskylda bankastarfsmanna standi upplýsingagjöf ekki í vegi og að trúnaður starfsmanna Hagstofunnar varðandi gögnin, að því marki sem þau verða persónugreinanleg, sé alger.

Sjá frumvarp á vef Alþingis um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum