Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. júní 2013 Forsætisráðuneytið

Réttindabarátta kvenna og jafnrétti kynja til framtíðar

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skrifar um réttindabaráttu kvenna, fjallar um stöðu jafnréttismála og reifar brýnustu verkefni sem vinna þarf að hér á landi á þessu sviði í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, 19. júní.

Í greininni segir ráðherra að enn blasi við launamisrétti kynjanna og ræðir leiðir til að vinna gegn því, meðal annars með innleiðingu á jafnlaunastaðli sem unnið er að: „Íslenskur vinnumarkaður er enn mjög kynskiptur en einmitt það er ein orsökin fyrir þeim launamun sem hér er að finna milli kvenna og karla. Við þurfum að grípa til markvissra aðgerða til að breyta náms- og starfsvali, hvetja stráka til að fara í umönnunarstörf og stelpur í tækni- og iðngreinar. Markmiðið er að einstaklingarnir blómstri og njóti hæfileika sinna í stað þess að fylgja hefðbundnum staðalmyndum og venjum. Það væri samfélaginu öllu til góðs.“

Ráðherra gerir einnig samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu að umfjöllunarefni, mikla atvinnuþátttöku kvenna hér á landi og mikilvægi þess að foreldrar taki jafnan þátt í uppeldi barna og heimilisstörfum.  Þá segir ráðherra að móta þurfi nýja fjölskyldustefnu sem nær til barna, fullorðinna, einkalífs og atvinnu sem og þjónustu við fjölskyldurnar í landinu. „Aðgangur að leikskólum, góðir grunnskólar og öflugt menntakerfi er jafnréttistæki sem þarf að varðveita og efla. Þá þarf að endurreisa fæðingarorlofskerfið sem er öflugt jafnréttistæki sem hefur án efa bætt stöðu bæði kvenna og karla á vinnumarkaði.“

„Við skulum þó ekki gleyma því að þrátt fyrir að víða sé verk að vinna höfum við náð miklum árangri á sviði kynjajafnréttis hér á landi. Lagaleg réttindi hafa verið tryggð á nánast öllum sviðum, félagsleg staða kvenna er mun betri hér á landi en víðast hvar annarsstaðar og hér eigum við velferðarkerfi sem styður fjölskyldur og einstaklinga í lífi og starfi sem og öflugt atvinnulíf. Það er því ástæða til að horfa björtum augum í átt til 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna eftir tvö ár. Notum 19. júní til að  horfa til baka og minnast brautryðjendanna sem við eigum svo margt að þakka. Nýtum daginn einnig til að horfa fram á við og heita því að standa okkur í að vinna að jafnrétti fyrir alla.“  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum