Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2013 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundar með lögmanni Færeyja

Forsætisráðherra og lögmaður Færeyja
Forsætisráðherra og lögmaður Færeyja

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fundaði síðdegis í dag, 24. júní, með lögmanni Færeyja, Kaj Leo Johannesen, í Þórshöfn í Færeyjum. Á fundinum var rætt um ýmis sameiginleg hagsmunamál landanna og kynnti forsætisráðherra lögmanni stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar um aukna áherslu á samstarf við Norðurlönd, ekki síst vest-norræna samstarfið, norðurslóðasamstarf og efnahagsmál á breiðum grundvelli. Meðal annars var rætt um þá þýðingu sem olíuleit hefur haft fyrir efnahagslíf Færeyinga.

„Við ræddum einnig stöðu fiskveiðisamninga vegna sameiginlegra stofna, einkum makríls og norsk-íslensku síldarinnar. Jafnframt var rætt um mikilvægi þess að fundnar séu lausnir í slíkum málum með samningum, en ekki einhliða aðgerðum eða yfirgangi stærri samningsaðila gagnvart þeim minni“, sagði forsætisráðherra eftir fundinn. Þá var rætt um framkvæmd Hoyvíkursamningsins, fríverslunarsamnings Færeyja og Íslands, sem er víðtækur viðskiptasamningur sem tók gildi árið 2005 og hefur skapað mikilvæg tækifæri í samskiptum landanna.

Forsætisráðherra hefur nú á fyrsta mánuði sínum í embætti fundað með öllum norrænu forsætisráðherrunum, lögmanni Færeyja og formanni landsstjórnar Grænlands. Eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður aukin áhersla lögð á samstarf á norrænum vettvangi og eru fundirnir liður í því að styrkja bein tengsl við aðra norræna ríkisstjórnaroddvita.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum