Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. júní 2013 Forsætisráðuneytið

A-488/2013. Úrskurður frá 25. júní 2013


ÚRSKURÐUR

 

Hinn 25. júní 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-488/2013 í máli ÚNU12120003.

 

Kæruefni og málsatvik

Þann 17. desember 2012, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu velferðarráðuneytis á beiðni hennar, dags. 26. október 2012, um aðgang að fyrirliggjandi gögnum um samskipti þess og embættis ríkislögmanns vegna máls hennar á hendur velferðarráðuneytinu.

 

Málsmeðferð

Kæran var send velferðarráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2012, þar sem því var beint til ráðuneytisins að svara erindi kæranda eigi síðar en 4. janúar 2013, sbr. 11. gr. og 13. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Með tölvubréfi velferðarráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 11. janúar 2013, var greint frá því að ráðuneytið hefði, þann 21. desember 2012, afhent kæranda umbeðin gögn varðandi samskipti hennar við ráðuneytið og ríkislögmann.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 22. janúar 2013, var framangreint bréf ráðuneytisins sent til kæranda og spurt hvort hún teldi afgreiðslu ráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum vera fullnægjandi.

 

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 14. febrúar 2013, kom fram að kærandi teldi svar velferðarráðuneytisins vera ófullnægjandi. Kærandi taldi að ráðuneytið þyrfti að gera frekari grein fyrir samskiptum sínum við embætti ríkislögmanns, spurði hvort velferðarráðuneytið hefði undir höndum tölvupósta þaðan, minnisbréf, póstlögð bréf, fax eða skeyti vegna þessa máls og vísaði til þess að varla hafi verið um einhliða samskipti að ræða af hálfu ráðuneytisins.

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

 

 

Niðurstaða

Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar velferðarráðuneytið tók hina kærðu ákvörðun voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996.


Hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál er að úrskurða um ágreining sem til hennar er beint vegna synjunar stjórnvalda um aðgang að gögnum, sbr. áður 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, og nú 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þessu leiðir að endurskoðun úrskurðarnefndarinnar lýtur að því hvort hin kærða ákvörðun hafi verið rétt að teknu tilliti til þeirra efnisreglna um upplýsingarétt sem í gildi voru þegar hún var tekin. Meðferð úrskurðarnefndarinnar á kærumálinu lýtur hins vegar, frá og með gildistöku hinna nýju laga, þeim reglum um form og hlutverk úrskurðarnefndarinnar sem þar koma fram.

 

Í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er meðal annars kveðið á um að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum „sem varða tiltekið mál“ með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í 15. gr. upplýsingalaga segir að sá sem fari fram á aðgang að gögnum skuli „tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál.

 

Upphafleg kæra til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. desember 2012, laut að því að beiðni um gögn hafi ekki verið svarað. Síðan hefur ráðuneytið svarað beiðninni, með bréfi dags. 22. janúar 2013, og sent með því afrit af bréfum og tölvupóstum varðandi mál kæranda á hendur ráðuneytinu.

 

Samkvæmt bréfi velferðarráðuneytisins, dags. 22. janúar 2013, fylgdu með þau skjöl er falla undir beiðni kæranda. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til þess að draga þá staðhæfingu ráðuneytisins í efa.

 

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006. Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum eða afrit þeirra samkvæmt lögunum. Þau gögn sem kærandi óskaði eftir hafa skv. framangreindu nú þegar verið afhent, þ.e. um samskipti velferðarráðuneytis og embættis ríkislögmanns varðandi mál á hendur velferðarráðuneytinu.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að velferðarráðuneytið hafi þegar afhent kæranda þau gögn sem falla undir beiðni hans og fyrirliggjandi eru hjá ráðuneytinu. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun þess stjórnvalds á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Úrskurðarorð

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru [A], dags. 17. desember 2012, á hendur velferðarráðuneytinu.


 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                                  Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum